Innlent

Á fjórða þúsund manns í ósamþykktu húsnæði

Benedikt Bóas skrifar
Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Köllunarklettsveg þegar þurfti að loka iðnaðarhúsnæði í nóvember síðastliðnum.
Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Köllunarklettsveg þegar þurfti að loka iðnaðarhúsnæði í nóvember síðastliðnum. vísir/stefán
„Markmiðið er ekki að hreinsa út úr svona húsnæði. Markmiðið er að eldvarnir séu í lagi,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), en honum var falið að kortleggja núverandi ástand á óleyfis­íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Jón Viðar Matthíasson slökkvliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.vísir/stefán
Hann telur að á fjórða þúsund manns búi í slíku húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. 

Staðfest er að 1.035 íbúar búa í óleyfisíbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestir eru í Reykjavík, eða 461, en flest börn búa í óleyfisíbúðum í Kópavogi, eða 30. Alls búa 94 börn í 39 óleyfisíbúðum.

„Það eru íbúðir mjög víða en það er mikilvægt að taka það fram að ekki eru allar íbúðir með slakar eldvarnir. Mikið af þessum íbúðum er til fyrirmyndar en í öðrum mætti bæta þær. Við viljum líka heyra frá fólki ef það er óöruggt með eldvarnir hjá sér,“ segir hann. Jón Viðar bendir á að þegar slökkviliðsmenn fara í útkall verði þeir að hafa á bak við eyrað að þar inni séu mögulega íbúar. „Við höfum þurft að loka húsnæði, oftar en einu sinni. Ástandið var þá þannig að það var ekki hægt að bæta úr aðstæðum,“ segir hann.

Frá árinu 2008 hefur óleyfisíbúðum í Hafnarfirði fjölgað um 60, eða úr 21 heimilisfangi í 81. Í Mosfellsbæ eru nú 19 þekkt heimilisföng en voru sjö árið 2008. Alls eru 132 óleyfisíbúðir í Reykjavík, 63 í Kópavogi og 15 í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×