Lífið

Ungir Íslendingar eru snilld

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Huginn Frár óttast ekki að hafa slæm áhrif á óharnaða unglinga með tvíræðri textasmíð sinni. Hann spilar með Úlfi Úlfi á Húrra í kvöld.  MYND/ERNIR
Huginn Frár óttast ekki að hafa slæm áhrif á óharnaða unglinga með tvíræðri textasmíð sinni. Hann spilar með Úlfi Úlfi á Húrra í kvöld. MYND/ERNIR MYND/ERNIR
Húsasmiðurinn og tónlistarmaðurinn Huginn Frár ber nafn annars hrafna Óðins, æðsta guðs í norrænni goðafræði, og krunkar nú eyrnakonfekti í hlustir landsmanna með frumraun sinni á tónlistarsviðinu.

Hver ertu og hvaðan, Huginn Frár?

„Ég er ungur strákur, sem vill ekkert annað en að gera tónlist með vinum sínum. Fæddur á Blönduósi og alinn upp á Skagaströnd, en hef alltaf verið meira borgarbarn. Borgarrætur mínar liggja í Breiðholtinu og Grafarvognum.“

Nafnið þitt er sérstakt; er saga á bak við það?

„Huginn var annar tveggja hrafna Óðins í norrænni goðafræði og ég held að mömmu og pabba hafi þótt nafnið fallegt. Þau grófu svo upp nafnið Frár úr gömlum bókum og þurftu að fá leyfi til að skíra mig því. Sjálfum langaði mig alltaf að heita Stefán þegar ég var yngri, en Huginn venst furðu vel!“

Hvert stefnir þú í lífinu? 

„Ég stefni bara hátt; stefni á að gera alltaf það sem mig langar til að gera og gera það vel.“

Nýja lagið er það fyrsta sem þú gefur út. Er von á meiru?

„Já, „Gefðu mér einn“ er fyrsta útgefna lagið mitt, en líka fyrsta lagið sem ég samdi. Það var eiginlega ástæðan fyrir því að það kemur út á undan hinum. Ég stefni á að gefa út annað vídeó á næstunni og svo sjáum við hvað gerist. Ég á nóg af efni til.“

Áttu þér fyrirmynd í tónlistarbransanum?

„Fyrirmyndirnar eru margar. Til dæmis Post Malone, Weeknd og Young Thug.“

Hver sá um tónlistarlegt uppeldi þitt?

„Mamma og pabbi áttu bæði stóran þátt í því. Mamma var í kór og er nú í Kvennakórnum Rósir og pabbi í hinum ýmsu hljómsveitum, eins og Tundur, Return to Base og nú í Nýríka Nonna. Ég hlustaði því á fjölbreytta tónlist á æskuárunum, allt frá Eminem til Slade.“

Eruð þið pabbi þinn samtaka í tónlistarbransanum?

„Við pabbi höfum lítið samið tónlist saman enda er ég meira í tölvugerðri tónlist og hann meira af gamla skólanum. En ég hef gaman af tónlistinni hans pabba og hann hefur gaman af minni, þótt mig gruni að hann hafi mest gaman af því að ég gerði hana. En pabbi er mjög stoltur af mér.“

Spilar þú á hljóðfæri?

„Ég var svo ofvirkur í æsku að ég var látinn æfa allt; blokkflautu, píanó og þverflautu, en lítið situr eftir. Ég kann svona fjögur grip á gítar en annars er ég nokkuð vonlaus á hljóðfærum.“

Hvað liggur þér á hjarta í tónlistinni?

„Það er mjög mismunandi, en um leið og ég heyri taktinn kemur eitthvað upp í hausinn á mér sem ég byggi ofan á.“

Hver er boðskapur „Gefðu mér einn”? Þú ert ansi berorður í textagerðinni.

„Þetta er í raun bara ég að fá útrás fyrir tilfinningum og lagið hefur sína merkingu fyrir mér. Svo verður hver og einn að túlka þetta fyrir sjálfan sig. Með „Gefðu mér einn“ veit ég vissulega hvað ég bið um en hver og einn tengir á sinn hátt við textann.“

Óttastu að hafa slæm áhrif á óharðnaða unglinga eða börn með umfjöllunarefni lagsins?

„Nei, svona hefur þetta alltaf verið. Tónlistarmenn fyrri tíma voru ekki að syngja vögguvísur fyrir foreldra okkar. Maður verður að hafa trú að yngri kynslóðir geti fylgt eigin sannfæringu.“

Það heyrast skothvellir í enda lagsins; er bófastef í tónlistinni?

„Nei, það er engin falin meining þar á bak við. Þessir skothvellir pössuðu bara vel inn og voru aðallega grín hjá okkur strákunum.“

Hvernig finnst þér að vera kominn í sviðsljósið og hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Ég vissi ekkert hvernig mér liði með að fara á svið í fyrsta sinn með eigið efni en ég varð alls ekki stressaður. Mér fannst það bara gaman og þetta verður skemmtilegra og skemmtilegra með hverju skiptinu. Viðtökurnar hafa verið æðislegar og virðast margir fíla þetta lag, sem er geðveikur bónus.“

Ertu góður strákur?

„Já, ég myndi segja að ég væri góður strákur og held að mamma mín væri sammála ef ég tæki til í herberginu mínu.“

Þú ert húsasmiður og nýstúdent. Hvernig er dæmigerður dagur í lífi ungs húsasmiðs?

„Ég á bágt með að svara því vegna þess að ég hef ekki enn unnið við húsasmíðarnar. Ég fór aðallega í smíði vegna þess að ég átti erfitt með að sitja kyrr en hver veit nema ég taki til við húsasmíðar í framtíðinni.“

Langar þig að byggja eigið hús?

„Já, ég hef áhuga á því og vonandi ríf ég upp gömlu bækurnar einn daginn og finn út úr því hvernig ég ætti að gera það.“

Hver eru önnur áhugamál?

„Ég fylgist mjög mikið með fótbolta, og er það eiginlega fótboltinn og tónlist sem eiga hug minn allan. Ég spilaði mikið á yngri- og unglingsárum, með Fjölni, Fram og Skallagrími og er alltaf á leiðinni í spriklið aftur.“

Hvernig hugsarðu um sjálfan þig?

„Nokkuð vel og er mjög duglegur að verðlauna sjálfan mig.“

Áttu þér leyndan hæfileika sem fáum er kunnur?

„Það gæti komið mörgum á óvart að ég tala reiprennandi dönsku eftir að hafa búið þar í sex ár.“

Hvað finnst þér best að gera um helgar?

„Það fer allt eftir stemningu. Ég fer bara þangað sem straumarnir taka mig, hvort sem það er að kíkja í bæinn, stúdíóið eða hvað annað sem fyrir liggur.“

Hvað er það sem þú stenst ekki?

„Beikon-lasanjað hennar mömmu veldur mér sjaldan vonbrigðum.“

Hvað er framundan?

„Ég verð bara í hörkunni í sumar því iðnaðurinn sefur aldrei. Svo mun ég auðvitað gefa út meiri tónlist og vonandi spila af og til. Í kvöld stíg ég á svið Húrra með strákunum í Úlfur Úlfur og næsta föstudagskvöld (9. júní) tek ég þátt í hljómleikaröðinni Stage Dive Fest, líka á Húrra.“

Hvernig er annars unga fólkið í dag, sem erfir Ísland?

„Ungir Íslendingar eru algjör snilld; kraftmikið fólk sem þorir og framkvæmir.“

Smellið hér til að sjá nýja lagið með Hugin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×