Erlent

Íranir saka Sáda um árásina í Teheran

Atli Ísleifsson skrifar
Fólk reynir að flýja íranska þinghúsið í morgun.
Fólk reynir að flýja íranska þinghúsið í morgun. Vísir/AFP
Fréttastofan Fars, sem tengist byltingarverðinum í Íran nánum böndum, hefur sakað stjórnvöld í Sádi-Arabíu um árásina í Teheran í morgun. Þá eru Bandaríkjamenn sakaðir um að hafa haft aðkomu að árásinni. Reuters greinir frá þessu.

Hópur manna réðst í morgun á þinghúsið og grafhýsi erkiklerksins Ayatollah Khomeini, og herma nýjustu fréttir að tólf manns hafi látið lífið og fjölmargir særst.

Ásökun Írana mun allra síst lægja öldurnar í þessum heimshluta eftir að fimm ríki - Sádí Arabía, Egyptaland, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Jemen – slitu á dögunum stjórnmálatengslum við Katar vegna meints stuðnings stjórnvalda þar í landi við hryðjuverkamenn.

Árásarmenn, vopnaðir Kalashnikov-rifflum, réðust inn í þinghúsið í Teheran og heyrðust reglulega skothvellir á svæðinu fram eftir degi þó að enn sé nokkuð óljóst með hvaða hætti framvindan var.

Talsmaður leyniþjónustu Írans sagði í morgun að tekist hefði að koma í veg fyrir þriðju árásina í borginni.

Hryðjuverkasamtökin ISIS höfðu áður lýst yfir ábyrgð á árásunum. Samtökin hafa raunar oft lýst yfir ábyrgð á árásum víðs vegar um heim þó að ekki sé nokkur fótur fyrir þeim fullyrðingum.


Tengdar fréttir

Sprengju- og skotárás í Íran

Einn hið minnsta er látinn og nokkrir eru særðir eftir tvær árásir vopnaðra manna í Tehran, höfuðborg Írans, í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×