Erlent

Trump vill útnefna nýjan forstjóra FBI sem fyrst

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, rétt áður en hann stígur inn í Air Force One.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, rétt áður en hann stígur inn í Air Force One. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann vilji útnefna nýjan forstjóra alríkislögreglunnar FBI sem fyrst, í stað James Comey sem hann rak í liðinni viku. Reuters greinir frá. 

Í samtali við fréttamenn um borð í Air Force One forsetaflugvélinni segir Trump að hann verði mögulega búinn að ákveða hvern hann muni útnefna strax í næstu viku.

Talið er að um 11 manns séu nú til skoðunar sem mögulegir arftakar Comey, þeirra á meðal eru Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóri FBI en hann gegnir nú stöðu forstjóra á meðan leit stendur yfir að arftaka Comey.

Trump segir að þeir einstaklingar sem komi til greina „séu allt framúrskarandi einstaklingar og mjög hæfir til að sinna starfinu.“

Ákvörðun Trump um að reka Comey úr starfi hefur verið harðlega gagnrýnd af bæði demókrötum sem og repúblikönum. Forsetinn hefur meðal annars sjálfur staðfest að hann hafi rekið Comey vegna rannsóknar hans á tengslum starfsliðs Trump við Rússa. 

Þá hefur hann jafnframt hótað Comey og sagt að hann skuli hugsa sig tvisvar um áður en hann leki upplýsingum til fjölmiðla og vona að það séu ekki til neinar upptökur af samtölum þeirra.

Trump hefur haldið því fram að Comey hafi beðið hann um að fullvissa sig um að hann myndi halda starfi sínu með Trump sem forseta. Comey hefur hins vegar neitað því og aldrei sagst hafa beðið Trump um neitt slíkt.

Öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, mun svo þurfa að staðfesta þann einstakling sem Trump ákveður að útnefna til embættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×