Innlent

Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot

Birgir Olgeirsson skrifar
Það var álit dómsins að að gegn neitun mannsins væri ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi haft ásetning til að brjóta gegn konunni með athöfnum sínum.
Það var álit dómsins að að gegn neitun mannsins væri ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi haft ásetning til að brjóta gegn konunni með athöfnum sínum. Vísir
Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað karlmann af ákæru um kynferðislega áreitni gegn ungri konu.

Var hann sakaður um að hafa káfað á kynfærum konunnar, beðið hana um að koma við kynfæri sín, fengið hana til að koma við getnaðarlim sinn í gegnum nærbuxur og brotið gegn blygðunarsemi hennar með því að liggja nakinn uppi í rúmi undir sæng með konunni.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að mikill aldursmunur væri á manninum og konunni, en á vef Ríkisútvarpsins var greint frá því að maðurinn væri á sextugsaldri en konan 23 ára. Þá kom einnig fram að bæði búi þau við nokkra þroskahömlun en þroskahömlun konunnar er mun meiri en mannsins.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að maðurinn og konan væru aðeins tvö til frásagnar um þá atburði sem lýst er í ákæru.

Að mati dómsins var konan trúverðug og ýkjulaus í framburði sínum en að framburður mannsins hefði tekið breytingum frá því hann í upphafi vildi ekki kannast við nokkur kynferðisleg samskipti þeirra á milli og kannaðist ekki við að hafa verið með konunni í rúmi en kvað þau aðeins hafa verið í sófa á heimili hans.

Að mati dómsins bar framburður mannsins þess merki frá upphafi að hann hafi leitast við að draga úr kynferðislegri háttsemi sinni gagnvart konunni og fegra sinn hlut.

Var því framburður konunnar lagður til grundvallar við úrlausn málsins.

Dómurinn lagði mat á það hvort háttsemi mannsins hafi verið óvelkomin og að manninum hafi verið það ljóst.

Héraðsdómur Suðurlands taldi að konan hafi ekki verið mótfallin framangreindum atburðum þegar þeir gerðust. Var það mat byggt á framburði konunnar og mannsins en við aðalmeðferð málsins kom fram í máli konunnar að henni leið ekki illa á meðan, en hins vegar leið henni illa eftir á og grét. Var þess getið í dómnum að hjá þeim báðum kom fram að um gagnkvæma snertingu hefði verið að ræða.

Þá tók Héraðsdómur Suðurlands fram að ekki hafi komið fram fyrir dómi að konan hafi á neinn hátt, hvorki með látbragði né orðum, gefið manninum það til kynna að hún væri þessu mótfallin eða að hún vildi ekki að hann gerði þetta.

Það var því álit dómsins að að gegn neitun mannsins sé ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi haft ásetning til að brjóta gegn konunni með athöfnum sínum.

Þegar kom að því að meta hvort maðurinn hefði sært blygðunarsemi konunnar með því að liggja nakinn í rúminu undir sæng með henni taldi dómurinn að sú háttsemi ein og sér að liggja nakinn undir eigin sæng á eigin heimili ekki geta almennt falið í sér brot gegn blygðunarsemi konunnar.

Það var talið óumdeilt að maðurinn hefði legið nakinn uppi í rúmi undir sæng eins og lýst var í ákærunni. Á hinn bóginn var ekki lýst í ákærunni að maðurinn hafi svo risið upp úr rúminu og við það hafi konan séð hann beran. Í framburði konunnar kom hins vegar fram að það hafi sært blygðunarsemi hennar þegar maðurinn reis úr rúminu og hún sá hann beran.

Héraðsdómur Suðurlands tók fram að það hefði ekki verið tekið fram í ákærunni og því var hann sýknaður af sakargiftum eins og þær voru bornar upp í ákærunni, það er að hafa legið nakinn uppi í rúmi undir sæng með konunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×