Sport

Búinn að gera það tvisvar á einni viku sem enginn annar Íslendingur hefur náð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Höður Gunnarsson.
Kolbeinn Höður Gunnarsson. Vísir/Valli
Fyrir mars 2017 hafði engum íslenskum manni tekist að hlaupa 200 metra á undir 21 sekúndu. Nú hefur Kolbeinn Höður Gunnarsson náð því tvisvar sinnum á einni viku.

Kolbeinn Höður Gunnarsson sló 27 ára Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar fyrir rúmri viku síðan þegar hann hljóp 200 metra hlaup á 20,96 sekúndum á móti í Memphis í Tennessee fylki. Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar var 21,17 sekúndur og sett 6. júní 1996.

Um helgina var Kolbeinn Höður síðan nálægt því að bæta glænýtt Íslandsmet sitt. Hann varð þá í þriðja sæti á Joe Walker boðsmótinu í í Mississippi þegar hann kom í mark á tímanum 20,99 sekúndur. Kolbeinn var aðeins 2/100 frá Íslandsmetinu sínu.  Frjálsíþróttasambandið segir frá.

Kolbeinn Höður hafði áður hlaupið 200 metrana hraðast á 21,19 sekúndum í fyrra en það er ljóst að hann hefur gert sér mjög gott með því að fara í skóla í Bandaríkjunum.

Kolbeinn Höður Gunnarsson er á fyrsta ári í University of Memphis en hann frá Akureyri og var áður nemandi í Menntaskólanum á Akureyri.   

Tímabilið er bara rétt að byrja og það verður spennandi að sjá hvernig gengur hjá Kolbeini og einnig hvort að hann ógni eitthvað metinu í 100 metra hlaupinu líka. Hæfileikarnir eru til staðar og nú er formið greinilega frábært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×