Innlent

Þungt högg og sárt fyrir Mottumars frá sjónvarpsmanni ársins

Jakob Bjarnar skrifar
Ragnar segir gagnrýni Helga ábyrgðarlausa, þetta sé þungt og sárt högg frá sjónvarpsmanni ársins sem fari með staðlausa stafi.
Ragnar segir gagnrýni Helga ábyrgðarlausa, þetta sé þungt og sárt högg frá sjónvarpsmanni ársins sem fari með staðlausa stafi.
Afdráttar- og umbúðarlaus gagnrýni Helga Seljan sjónvarpsmanns á átakið Mottumars fer ekki vel í þá sem að því standa og segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg auglýsingastofu, það út í hött. Hann segir að þetta sé þungt og sársaukafullt högg frá þessum þekkta og margverðlaunaða sjónvarpsmanni.

Gallhörð gagnrýni Helga

Helgi Seljan hefur gagnrýnt átakið hressilega, á Twitter eins og Vísir greindi frá í morgun og svo seinna á Facebook, þar sem hann segir:

„Árið 2010 fóru 2 milljónir af þeim 60 sem söfnuðust í Mottumars til Krabbameinsrannsókna. Restin fór til auglýsingastofa og milliliða. Það er mun betra að leggja beint inn á Krabbameinsfélög um allt land en að taka þátt í þessu drasli.“

Ragnar er framkvæmdastjóri og einn eigenda Brandenburgar sem hefur annast þessi mál fyrir Krabbameinsfélagið, síðustu árin. Honum er ekki skemmt:

Þungt högg frá sjónvarpsmanni ársins

„Þetta er náttúrlega alveg ótrúlega ábyrgðarlaust tal hjá starfsmanni RUV að slengja svona fram án þess að kynna sér málin betur. Ég get bara svarað fyrir auglýsingastofuna og það sem snýr að henni. Stór hluti af þessum framleiðslukostnaði er unninn í sjálfboðavinnu eða með mjög miklum afslætti. Þetta er náttúrlega mjög þungt högg fyrir þá sem eru að gefa vinnu sína að miklu leyti eða á miklum afslætti í þágu góðs málefnis og fá svona þrumu í andlitið frá virtum blaðamanni RUV og margverðlaunuðum. Sjónvarpsmaður ársins hvorki meira né minna,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að það verði að koma skýrt fram að áherslan í mottumarsátakinu eru fyrst og fremst forvarnir gagnvart þeim hópi sem eru ungmenni en ekki söfnun. Og honum sé ekki kunnugt um það nákvæmlega hvernig Krabbameinsfélagið ráðstafi því fé sem safnast en starf félagsins sé margþætt og snúi ekki bara að rannsóknum. Ragnar segir þær tölur sem Helgi setur fram stangast á við þær tölur sem hann þekkir úr eigin bókhaldi.

„Þetta er út í hött.“

Líta svo á að þeir séu að styrkja gott málefni

Hann ítrekar jafnframt að vinna fyrir Krabbameinsfélagið sé í sjálfboðavinnu og/eða unnin með miklum afslætti.

„Allskonar aðilar koma að því að búa til auglýsingarnar. Við höfum litið á þetta þannig að með því séum við að styrkja gott málefni sem það er svo sannarlega. Bæði Mottumars og Bleika slaufan.“

Ef litið er til Mottumars núna þá er aðaláherslan á forvarnir, sem áður sagði.

„Og þeim forvörnum er verið að beina að ungu fólki sem er undir mikilli pressu frá markaðsöflunum, sem eru að tískuvæða tóbak í vörina og aðrar leiðir og aðalástæðan fyrir þessu upphlaupi nú virðist vera að við komum inná þetta nýjasta æði sem er veipið. Það eru allir sammála um að það sé gott hjálpartæki til að hjálpa fólki að hætta að reykja en hins vegar er líka verið að tískuvæða þetta og reyna að fá ungt fólk, sem hefur aldrei reykt, til þess að prófa þetta. Það er það sem við erum að vekja athygli á meðal annars. En þetta er pínulítill punktur í auglýsingunni sem stefnir í að verða eitt stærsta hitamálið hjá þeim sem eru að nota þessi tæki.“

Sjóðheitir veiparar

Ragnar segir þetta þungt högg og sárt frá Helga fyrir þá sem telja sig vera að vinna gott starf. „Langflestir, verktakar og aðrir, sem koma að þessu eru að gefa vinnu sína. Mér finnst þetta svo sárt að menn skuli þá ekki kynna sér þetta betur. Ef hann vill vill setja fram með þessu hætti þá finnst mér að hann ætti að leita sér upplýsinga og ræða við forsvarsmenn Krabbameinsfélaginu.“

Ragnar er í engum vafa um að það sem kallað hefur fram reiði í hugum þeirra sem nú gagnrýna verkefnið sé það sem snýr að rafsígarettum eða því sem gengur undir nafninu veip.

„Þessi veipumræða virðist hafa snert ansi viðkvæmar taugar svo ekki sé meira sagt. Krabbameinsfélagið er fylgjandi því að þeir sem eru að reyna að hætta að reykja nýti þau meðöl sem eru í boði en þessi markaðsvæðing sem er í gangi, sem er að gera veipið töff, nær langt út fyrir það. Hún gengur út á að stækka hópinn, ná í nýjan hóp sem hefur aldrei reykt. Og það hlýtur hver maður að sjá að er fullkomlega galið. Við eigum að vita betur.“

Skuggabaldrar á bak við veipæðið

Ekki er það bara svo að sá þáttur herferðarinnar í tengslum við Mottumars sem snýr að veipinu hafi einungis farið fyrir brjóstið á Helga Seljan heldur geisar heit umræða í því sem kalla má „veipsamfélagið“ á netinu þar sem þetta er harðlega gagnrýnt og menn hvattir til að snúast gegn þeim áróðri. Ragnar hefur starfað áratugum saman í auglýsingageiranum og hann þekkir því vel til þeirra markaðsafla sem hann vísar í.

Hverjir eru þetta sem standa á bak við það sem Ragnar kallar veipæði?

„Já, það eru þeir sem eru að framleiða þetta nikótín og þá eru tóbaksfyrirtækin á bak við þetta. Þetta er ný tekjulind fyrir þau, án ábyrgðar. Eins og með allt annað æði. Það er yfirleitt alltaf einhver á bak við það. Eða einhver sem hoppar á það.“

En, má ekki segja að það hafi verið mistök af þinni hálfu og Brandenburgar að fara með herferðina inná þessar brautir?

„Það vil ég alls ekki meina. Ég held að það sé skylda okkar að vekja athygli á þessari nýju tækni, okkar allra að skoða og velta fyrir okkur hvað er að gerast? Hvað er á bak við þetta? Og er þetta eitthvað sem ber að varast? Er þetta gott eða slæmt? Við hljótum sem neytendur að velta því fyrir okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×