Innlent

Minna fugla- og dýralíf í Heiðmörk en fyrri ár

Svavar Hávarðsson skrifar
Kanínur hafa í seinni tíð verið æ meira áberandi í Heiðmörk.
Kanínur hafa í seinni tíð verið æ meira áberandi í Heiðmörk. vísir/valli
Viðkoma villtra fugla og spendýra í Heiðmörk var minni árið 2015 en fyrri ár. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Hafsteins Björgvinssonar, eftirlitsmanns Veitna [dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur] með vatnsverndarsvæðum höfuðborgarsvæðisins.

Minna var um fugl af flestum tegundum árið 2015 en fyrri ár. Gæsum fækkaði og flestum andategundum. Skógarfuglunum fækkar líka flestum á milli ára en meira var þó um steindepil og maríuerlu en árið 2014 og svartþröstur er stöðugt að gera sig heimakomnari í Heiðmörkinni, segir í frétt á heimasíðu OR.

Glóbrystingur og skutulönd eru nýjar tegundir sem nefndar eru í skýrslunni í ár en báðar tegundir eru flækingar hér á landi.

Sömu sögu er að segja af spendýrum. Minna var um mýs, kanínur færri og veiddir minkar voru færri en mörg fyrri ár, eða átta talsins.

Skýrslur Hafsteins hafa nú komið út samfellt í 20 ár og gefa góða mynd af því hvernig villt dýr hafast við í Heiðmörk. Heiðmörkin nýtur verndar sem vatnsverndarsvæði en er einnig nýtt til skógræktar og útivistar. Mest er þar um fugla en líka villt spendýr á borð við mýs, refi, minka og kanínur í seinni tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×