Innlent

Launaþróun í ferðaþjónustu hefur ekki fylgt almennri launaþróun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Launaþróun í ferðaþjónustu hefur ekki fylgt almennri launaþróun og óleiðréttur kynbundinn launamunur er allt að fimmtíu prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um launagreiningu í ferðaþjónustu.

 

Í skýrslunni er farið yfir þróun og samsetningu launa þeirra nítján þúsund starfsmanna sem starfa innan ferðaþjónustunnar og þau borin saman við almenna launaþróun. Greiningin er unnin af Háskólanum á Bifröst fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Helstu niðurstöður eru að á árunum 2010 til 2015 hafi laun í ferðaþjónustu hækkað tveimur prósentustigum minna en önnur laun. Launin eru hæst í flugsamgöngum en lægst í veitingaiðnaði, eru hæst á Austurlandi og í Reykjavík en um þriðjungi lægri á Vestfjörðum.

Kynbundinn launamunur er umtalsverður. Karlar eru með tuttugu prósent hærri laun og allt að fimmtíu prósent hærri í flokki ferðaskrifstofa. Þess skal getið að launamunurinn er óleiðréttur. Einnig kemur fram að umgjörð jafnaðarkaups sé óskýr og skoða þurfi svarta atvinnustarfsemi í greininni.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ekki sé tekið tillit til hlutastarfa og það skekki myndina verulega.

„Hvað varðar þessa skýrslu þá hefði verið mikilvægt að fá upplýsingar um þessi starfshlutföll, áður en farið er út í skýrslugerð og ætlum að taka ákvörðun út frá henni. En því miður er þetta eitt dæmi af mörgum, okkur vantar svo mikið af grunnupplýsingum um þessa stóru og mikilvægu atvinnugrein okkar,“ segir Helga.

Varðandi kynbundinn segir Helga hæpið að vera með getgátur út frá svo lélegum grunngögnum.

„Það er ekki tekið tillit til menntunar, starfsaldurs eða annars sem er svo mikilvægt þegar horft er á jafn mikilvægan punkt og að reyna skilgreina launamun kynjanna,“ segir Helga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×