Innlent

Sjúkrabíll og sendibíll skullu saman

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/vilhelm
Í liðinni viku varð árekstur milli sendibíls og sjúkrabifreiðar en bæði ökutæki eru óökuhæf eftir áreksturinn. Enginn sjúklingur var í sjúkrabílnum.

Áreksturinn varð niður undir Akranesi en hann atvikaðist þannig að ökumaður sjúkrabílsins var að beygja út fyrir kyrrstæðan gámabíl þegar bíll kom úr gagnstæðri átt.

Óhappið var eitt sjö óhappa í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í liðinni viku. Ökumenn og farþegar sluppu án teljandi meiðsla. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi.

Tveir erlendir ferðamenn lentu í slysum. Annar í Leirársveit þegar hann reyndi ótímabæran framúrakstur. Þegar bíll kom á móti honum tók hann þá ákvörðun að beygja út af og endaði bílaleigubíllinn ónýtur út í móa.

Erlendir ökumenn voru í akstri á Snæfellsnesi á tveimur bílum. Þegar ökumaður fremri bílsins uppgötvaði að hann var á vitlausri leið þá hægði hann ferðina og beygði síðan til vinstri og ætlaði út á næsta afleggjara til að snúa við. Þegar ökumaður aftari bílsins sá þann fyrir framan hægja ferðina datt honum í hug að fara framúr honum og þannig varð til nokkuð harður árekstur þessara ökutækja sem að skemmdust töluvert.

Einn ökumaður var stöðvaður fyrir ölvunarakstur. Sá voru fjörutíu ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur af lögreglumönnum og myndavélar í umdæminu fönguðu 645 til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×