Innlent

Gripið til aðgerða vegna skorts á heitu vatni í Hveragerði

Birgir Olgeirsson skrifar
Gestir sundlaugarinnar í Laugaskarði þurftu að skella sér í kalda sturtu á laugardag.
Gestir sundlaugarinnar í Laugaskarði þurftu að skella sér í kalda sturtu á laugardag. Vísir
Gestir sundlaugarinnar í Laugaskarði í Hveragerði fengu kalda gusu í andlitið þegar þeir ætluðu að baða sig fyrir sundlaugarferðina síðastliðinn laugardag. Var lítið um heitt vatn þegar skrúfað var frá sturtunum og heitu pottarnir langt frá því sem talist getur heitur pottur.

Fengust þau svör að afhending á heitu vatni hefði ekki verið upp á sitt besta í Hveragerði síðastliðna mánuði og þetta væri eitt af þeim skiptum.

Gæti mörgum þótt það einkennilegt að heyra, að það sé erfitt sé að fá heitt vatn í Hveragerði enda nafn bæjarins tengt við op í jörðina þar sem upp streymir heitt vatn eða gufa. Það gæti jafnvel þótt saga til næsta bæjar ef ekkert heitt vatn fæst í Hveragerði, svipað og ef kaffilaust yrði í Brasilíuborg.

„Þetta er aðeins flókin staða í Hveragerði,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en dótturfyrirtæki OR, Veitur, sér um hitaveituna í Hveragerði.

Hún segir heitavatnsskortinn í sundlauginni um helgina hafa stafaði af viðhaldi á borholum en verið var að hreinsibora þær, sem er sagt eðlilegt viðhald.

Hvergerðingar eru með þrjár hitaveitur í bænum. Hluti bæjarins fær hita frá Austurveitu í Ölfusi og þar eru hlutir í fínu lagi. Stórnotendur í bænum fá svo orku frá gufuveitunni og heimili og minni fyrirtæki eru tengd tvöföldu varmaskiptakerfi. Orkan hefur komið frá tveimur borholum og undanfarin ár hefur fyrirkomulagið verið þannig að aðeins er önnur þeirra í notkun í einu og fæðir þá bæði gufuveituna og varmaskiptakerfið.

„Þrýstingurinn tók svolítið mikla dýfu síðastliðinn vetur og það er verið að grípa til aðgerða. Þetta eru þrjú kerfi sem eru í Hveragerði og frekar flókið mál að skýra en einfalda myndin er sú að þetta eru tvær holur sem hafa verið notaðar til skiptis, önnur á veturna en hin á sumrin,“ segir Ólöf.

Báðar holurnar eru við bæinn og fær Hveragerði sína orku að megninu til úr nærumhverfi bæjarins en eftir viðgerðir helgarinnar er vonast til að þetta komist í betra horf og ráðgert er að tengja tvær borholur til viðbótar.

„Þrýstingur í holunum sem nýttar hafa verið í gufuveituna og varmaskiptakerfið hefur farið minnkandi undanfarin ár og tók hann dýfu síðasta vetur. Þá var farið að huga að aðgerðum til að tryggja Hvergerðingum næga orku. Nú er verið að keyra báðar holurnar, önnur fæðir gufuveituna og hin varmaskiptakerfið. Á næstunni verður sett dæla í aðra þeirra sem eykur afköstin auk þess sem verið er að undirbúa tengingu á tveimur eldri holum sem eru í Ölfusdal. Önnur þeirra er mjög gjöful. Þessar aðgerðir eiga að tryggja Hvergerðingum næga orku til húshitunar og atvinnustarfsemi til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×