Innlent

Stjórnarkjör til hlutafélagaskrár

Ingvar Haraldsson skrifar
Arnar Sigurmundsson.
Arnar Sigurmundsson. Visir/GVA
Hlutafélagaskrá hafa borist tvær tilkynningar um nýja stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Deilur urðu á aðalfundi félagsins um síðustu helgi þegar tveir einstaklingar urðu jafnir í kjöri um fimmta stjórnarmanninn.

Í greinargerð lögmanna minnihluta hluthafa til Arnars Sigmundssonar, fundarstjóra og stjórnarmanns í Landssamtökum lífeyrissjóða ásamt hlutafélagaskrá, segir að talningarmenn hafi verið ósammála um það hvort varpa ætti hlutkesti eða fundurinn sjálfur kysi á milli tveggja manna sem fengið höfðu jafn mörg atkvæði.

Á meðan þær deilur stóðu yfir hafi fundarstjóri tilkynnt að kosningin yrði ógild þar sem ekki hefðu allir atkvæðaseðlar borist talningarefnd og kjósa þyrfti að nýju.

Ingvar Eyfjörð, sem kjörinn var í stjórn Vinnslustöðvarinnar, sem fulltrúi minnihlutans, segir þá ákvörðun að endurtaka kosninguna óskiljanlega, allir hafi rétt til að greiða ekki atkvæði.

Ingvar hefur neitað að skrifa upp á þá stjórn sem kjörin var í síðari kosningunni þar sem hann telur kosninguna ólöglega. Því þarf hlutafélagaskrá nú að úrskurða um hvort stjórnarkjör aðalfundarins sé löglegt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×