Innlent

Uppsögn framkvæmdastjóra skekur skátahreyfinguna

Birgir Olgeirsson skrifar
Uppsögnin olli undran á meðal skáta þar sem stutt er síðan ráðningarsamningur við Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóra skátahreyfingarinnar, var framlengdur um þrjú og hálft ár.
Uppsögnin olli undran á meðal skáta þar sem stutt er síðan ráðningarsamningur við Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóra skátahreyfingarinnar, var framlengdur um þrjú og hálft ár. Vísir/Daníel
Framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta var sagt upp störfum í vikunni og ríkir nokkur óánægja með það innan skátahreyfingarinnar.

Umræða um uppsögnina spratt upp innan Facebook-hóps skáta sem nefnist Skátar á Íslandi. Uppsögnin olli undran á meðal skáta þar sem stutt er síðan ráðningarsamningur við Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóra skátahreyfingarinnar, var framlengdur um þrjú og hálft ár.

Þá er risaverkefni fyrirhugað innan skátahreyfingarinnar næsta sumar þar sem alþjóðlegt skátamóti, World Scoot Moot, verður haldið hér á landi en þar koma saman 5.000 skátar frá öllum heimshornum.

Bragi Björnsson skátahöfðingi.
Var það samþykkt af stjórn Bandalags íslenskra skáta að segja Hermanni upp störfum í vikunni en kallað hefur verið eftir skýringum á þeirri uppsögn innan skátahreyfingarinnar. 

Hafði framkvæmdastjórinn nýverið tekið á eineltismáli sem kom upp innan hreyfingarinnar. 

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segir Bragi Björnsson skátahöfðingi að ástæða uppsagnarinnar sé sú að komið hafi upp trúnaðarbrestur milli framkvæmdastjóra og stjórnar. Meirihluti stjórnar hafi því komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að ganga til samninga um starfslok.

Bragi segir ennfremur að eineltismálið tengist ekki uppsögninni en kæran vegna eineltisins fór fyrir stofnun innan Bandalags Skáta sem nefnist Skátaréttur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×