Innlent

Halda áfram rannsókn á klessubílunum í Smáralind

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tækinu var lokað eftir óhappið. Vinnueftirlitið telur ekki þörf á að loka tækinu, en segir þó að þörf sé á frekari skoðun.
Tækinu var lokað eftir óhappið. Vinnueftirlitið telur ekki þörf á að loka tækinu, en segir þó að þörf sé á frekari skoðun. vísir/ernir
Ekki voru forsendur til þess að banna áframhaldandi notkun á klessubílatækinu í tívolí-inu í Smáralind en þó er enn þörf á frekari skoðun, segir Sigurður Sigurðsson, svæðisstjóri fyrirtækjaeftirlits hjá Vinnueftirlitinu. Vinnueftirlitið fer með rannsókn á óhappi sem varð í tívolíinu um síðustu helgi þegar sjö ára stúlka fékk raflost í tækinu.

Ekki hætta á ferðum

„Það eru atriði sem við erum að skoða nánar. Við þurfum að vita meira um þennan búnað, en það er rétt að taka fram að það er ekki hætta á ferðum, og þess vegna voru ekki forsendur til annars en að létta banninu,“ segir Sigurður, en Vinnueftirlitið lét loka tækinu eftir slysið.

Stúlkan slasaðist ekki alvarlega, en veski sem stúlkan hafði meðferðis festist í tækinu með þeim afleiðingum að skammhlaup varð. „Ef barn meiðir sig eða er í hættu þá hlaupa allir til hérna og það er búinn að fara drjúgur tími í þetta, og við erum og munum skoða þetta alvarlega,“ segir Sigurður.

Gert að bæta starfsþjálfun

Þeim tilmælum hefur verið beint til Smáratívolís að skerpa á þjálfun starfsfólks og bæta merkingar. „Það eru merkingar á staðnum, en fólk vissi samt ekki að það mætti ekki hafa neitt á sér. Það hefur verið bætt og það leysir vandann töluvert, en það er eitthvað útistandandi sem við þurfum að skoða nánar.“

Sigurður segir að þegar hafi verið haft samband við framleiðendur leiktækisins. „Það er almenn regla í merkingum að tæki eiga að þola það sem kallað er ætluð misnotkun. Það er eitthvað sem hvílir á framleiðendum, þannig að þetta verður unnið í samstarfi við þá og skoðað mjög alvarlega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×