Innlent

Gamalt veikt fólk sveltur

Svavar Hávarðsson skrifar
Líklega eyða fleiri en færri ævikvöldinu án þess að fá réttan, eða nægan, mat til að halda lágmarks heilsu.
Líklega eyða fleiri en færri ævikvöldinu án þess að fá réttan, eða nægan, mat til að halda lágmarks heilsu. vísir/vilhelm

„Því miður er hér á ferðinni grafalvarlegt mál. Því ef þú ert gamall, veikur einstaklingur, og átt ekki þeim mun duglegri aðstandendur, þá ert þú í mjög vondum málum,“ segir Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Sterkar vísbendingar eru um að vannæring aldraðra á íslenskum sjúkrastofnunum sé algengt vandamál. Í rannsókn sem gerð var árin 2015 og 2016 kom í ljós að tveir af hverjum þremur inniliggjandi öldruðum á Landakotsspítala eru vannærðir eða sýna þess sterk merki að svo sé. Þessi rannsókn er þó aðeins punktmæling á ástandi sem er mjög útbreitt hér á landi, án þess að nokkur umræða hafi náð sér á flug á meðal almennings. Á þetta bæði við um stöðuna inni á heimilum gamla fólksins og sjúkrastofnunum, þar sem ástand þess veika getur hæglega versnað mikið. „Við getum óhikað sagt að meirihluti okkar sjúklinga sé á þessum stað,“ segir Ólöf og bætir við að kerfið hér á landi geri í raun ráð fyrir því að gamalt fólk fái allan nauðsynlegan stuðning frá aðstandendum sínum. „Það eru alvarlegar brotalamir innan kerfisins,“ segir Ólöf en meðalaldur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni á Landakoti sem hér um ræðir er 83 ár.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við HÍ.

Ólöf, sem einnig er verkefnastjóri við Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræði, bendir á að þegar veikur einstaklingur er kominn heim eftir sjúkrahúsvist er lítið stuðningsnet fyrir fagfólk og umönnunaraðila hvað varðar viðbrögð þegar grunur er um vannæringu eða vannæring er til staðar. Engar leiðbeiningar eru fyrir það fyrsta til á Íslandi um mataræði eða næringu fyrir þennan hóp. Einnig eru fá úrræði fyrir þá sem vilja grípa inn í lélegt næringarástand og hjálpa einstaklingnum til að fyrirbyggja vannæringu eða til að byggja sig upp, en til dæmis er enginn næringarfræðingur við störf í heimaþjónustu eða á heilsugæslunni. Þá er heimsendur matur allur miðaður við þarfir gamals fólks sem er heilbrigt – en slíkur matur getur einfaldlega hentað þeim sem er veikur illa eða alls ekki.

„Þegar matur er sendur heim til fólksins er aðeins um eina máltíð eða hádegismat að ræða, og það er ekki nema 30-40% þeirrar orku sem aldraður einstaklingur þarf yfir daginn. Annars staðar í heiminum myndi þetta einfaldlega flokkast undir svelti,“ segir Ólöf og segir það dapurlega staðreynd að viðmið Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) miðast ekki við alþjóðlega viðurkennda staðla um líkamsþyngd eða þyngdartap aldraðra. Þeir eiga því ekki rétt á niðurgreiðslu á næringardrykkjum, sem myndu henta afar vel til að koma til móts við vanda margra veikra aldraðra.

Áhrif vannæringar á líkamsstarfsemi

Skilyrði Sjúkratrygginga Íslands eru reyndar þannig í dag að þeir sem fullnægja skilyrðum um aðstoð eru orðnir það vannærðir að erfitt er að hjálpa þeim. Ekki er hægt samkvæmt viðmiðunum SÍ að koma í veg fyrir eða grípa inn í þegar aldraður einstaklingur verður veikur og er í hættu á vannæringu.

„Þetta þýðir í raun að litlar eða engar líkur eru á því að hægt sé að næra viðkomandi einstakling upp, svo að hann nái sér. Það að vera vannærður þýðir það einfaldlega að vöðvar brotna niður, þú verður hreyfihamlaður, þetta hefur áhrif á þig vitrænt. Við erum því að búa til veika einstaklinga,“ segir Ólöf og bendir á niðurstöður sem Anne Marie Beck, dósent í næringafræði við Metropolitian University College í Danmörku, fjallaði um á málþingi um vannæringu. Rannsóknir hennar og fleiri sérfræðinga sýna að vannæring er mjög kostnaðarsöm fyrir heilbrigðiskerfið því þeir sem vannærðir eru liggja lengur inni á sjúkrastofnunum og endurinnlagnir þeirra eru algengari. Vannæring dregur fólk einnig til dauða fyrr en ella enda hrakar bæði andlegri- og líkamlegri færni fyrr hjá vannærðum einstaklingum.

„Ábyrgðin til að laga þetta er hjá okkur öllum. Þetta er spurning um forgangsröðun við að deila út peningum sem öðru. Við erum að tala um líf, og lífsgæði, fólksins sem byggði upp þetta góða samfélag sem við búum í. Við skuldum þeim mikið og þetta er spurning um að sýna þessu fólki lágmarks virðingu,“ segir Ólöf.

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.