Körfubolti

Stærsta tap íslenska kvennalandsliðsins í 26 ár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir.
Pálína Gunnlaugsdóttir. Vísir/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið tapaði með 46 stigum á móti Slóvakíu, 86-40, í undankeppni EM 2017 en þetta var fyrsti keppnisleikur liðsins án Helenu Sverrisdóttur í tólf ár. Liðið átti erfitt uppdráttar nánast frá fyrstu mínútu og voru þær slóvakísku of sterkar.

Íslenskar landsliðskonur hafa ekki tapað stærra í meira en aldarfjórðung eða síðan íslenska liðið tapaði með 62 stigum á móti Danmörku 10. október 1990.  Leikur íslenska liðsins var alls ekki nægilega góður og var liðið til að mynda með næstum því með jafnmarga tapaða bolta (33) og stig (40) í leiknum.

Íslensku stelpurnar voru strax komnar tuttugu stigum undir eftir fyrsta leikhlutann, 26-6, þar sem einu stigin voru tvær þriggja stiga körfur hjá Pálínu Gunnlaugsdóttur. Besti leikhluti íslenska liðsins var annar leikhlutinn sem tapaðist með þremur stigum, 15-12. Munurinn var því 23 stig í hálfleik, 41-18, og róðurinn heldur betur þungur eftir fyrstu tuttugu mínútur leiksins.

Slóvakíska liðið gaf aftur í þeim seinni og vann þriðja leikhlutann 25-12 og fjórða leikhlutann 20-10. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var stigahæst í íslenska liðinu með sjö stig en hún gaf einnig þrjár stoðsendingar.

Pálína Gunnlaugsdóttir var næststigahæst með 6 stig og komu þau öll í fyrsta leikhlutanum. Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir spiluðu sinn fyrsta A-landsleik í Slóvakíu í kvöld og skoruðu báðar sín fyrstu landsliðsstig í leiknum alveg eins og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir.

Ísland mætir Portúgal í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið klukkan 19:30.

Stig og tölfræði íslenska liðsins í leiknum:

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7 stig, 3 stoðsendingar

Pálína María Gunnlaugsdóttir 6 stig

Gunnhildur Gunnarsdóttir 4 stig, 4 fráköst, 2 stolnir

Hallveig Jónsdóttir 4 stig

Ragna Margrét Brynjarsdóttir 3 stig, 3 fráköst

Ingunn Embla Kristínardóttir 3 stig

Ingibjörg Jakobsdóttir 3 stig

Sandra Lind Þrastardóttir 3 stig, 7 fráköst

Berglind Gunnarsdóttir 2 stig

Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 2 stig

Thelma Dís Ágústsdóttir 2 stig

Emelía Ósk Gunnarsdóttir 1 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×