Handbolti

Hanning: Ekki frágengið að Dagur fari til Japans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson og Bob Hanning.
Dagur Sigurðsson og Bob Hanning. Vísir/Getty
Tveir íslenskir erlendra landsliða gætu kvatt landslið sín á HM í Frakklandi eftir áramót - Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson.

Danska handknattleikssambandið tilkynnti í dag að Guðmundur muni hætta sem þjálfari danska liðsins þegar samningur hans við sambandið rennur út í sumar.

Sjá einnig: Guðmundur hættir að þjálfa danska landsliðið

Síðustu daga og vikur hefur einnig verið fjallað um stöðu Dags Sigurðssonar, þjálfara Evrópumeistara Þýskalands. Sjálfur hefur Dagur sagt að hann sé að íhuga sína stöðu en að engin ákvörðun hefur verið tekin.

Engu að síður fullyrða fjölmiðlar í Þýskalandi að það liggi fyrir að Dagur hætti með þýska liðið í sumar og að hann taki þá við landsliði Japan, sem verður gestgjafi á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020.

Báðir þjálfarar náðu frábærum árangri á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar. Guðmundur vann gull með Dönum og Dagur brons með Þjóðverjum.

Sjá einnig: Segja Dag taka við japanska landsliðinu

„Það er rangt að það sé ákveðið að hann fari til Japans,“ sagði Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins, við fréttaveituna DPA í dag.

Hanning viðurkennir þó að Japan komi til greina enda þekkir Dagur vel til þar í landi eftir að hafa verið spilandi þjálfari hjá Wakunaga Hiroshima frá 2000 til 2003.

Dagur hefur einnig verið orðaður við stórliðin PSG í Frakklandi og Veszprem í Ungverjalandi.

„Ég myndi fá þýsku úrvalsdeildina í lið með mér og berjast um að halda Degi ef hann færi til annað þeirra liða,“ sagði Hanning.

„En þegar kemur að því lífsplönum Dags þá get ég ekkert gert við því. Ákvörðunin um Japan snýst á engan hátt um peninga,“ sagði hann enn fremur.

Hanning hefur viðurkennt að þýska sambandið sé byrjað að líta í kringum sig á eftir mögulegum arftökum Dags en að þjálfarinn íslenski hafi til loka mánaðarins að ákveða hvort hann ætli að halda áfram til 2020 eða segja samningnum sínum upp í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×