Handbolti

Segja Dag taka við japanska landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tekur Dagur aftur U-beygju á ferlinum og fer til Japan?
Tekur Dagur aftur U-beygju á ferlinum og fer til Japan? vísir/getty
Dagur Sigurðsson verður ekki áfram landsliðsþjálfari Þýskalands eftir HM 2017 í Frakklandi. Hann mun stýra liðinu þar í síðasta sinn en láta svo af störfum og taka við japanska landsliðinu. Þetta kemur fram í frétt þýska blaðsins Bild.

Dagur er með samning við þýska landsliðið til ársins 2020 en klásúla er í samningi hans sem gerir Valsmanninum kleift að láta af störfum eftir HM. Það ætlar hann að gera en eins og Vísir greindi frá er hann með tilboð í höndunum frá tveimur stærstu félagsliðum heims; PSG og Veszprém.

Samkvæmt frétt Bild er næsti áfangastaður Dags Japan en hann vildi ekkert staðfesta þegar blaðamaður Bild náði tali af honum. Dagur sagðist enn fremur ekkert vera búinn að ákveða.

Þýska blaðið heldur því fram að Dagur ætli að flytja heim til Íslands vegna fjölskylduaðstæðna en hann mun svo fljúga á milli Íslands og Japans og þjálfa japanska landsliðið.

Dagur þekkir vel til í Japan en hann fór óvænt þangað árið 2000 og gerðist spilandi þjálfari Wakunaga Hiroshima. Eftir það var hann spilandi þjálfari A1 Bregenz í Austurríki og svo landsliðsþjálfari Austurríkis. Hann fór svo til Þýskalands og gerði Füchse Berlín að einu besta liði Evrópu áður en hann tók við þýska landsliðinu.

Dagur er í guðatölu í Þýskalandi eftir að gera handboltalandsliðið þar að Evrópumeisturum í janúar og landa svo bronsi á Ólympíuleikunum í Ríó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×