Innlent

ESB tilskipun reynir á þanþol stjórnarskrárinnar á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Atkvæðagreiðslu um tilskipun Evrópusambandsins um fjármálaþjónustu var ítrekað frestað á Alþingi í dag vegna efasemda um að hún standist stjórnarskrá. Össur Skarphéðinsson segir að ef tillagan verði samþykkt sé verið að vaða á skítugum skónum yfir stjórnarskrána.

Dr. Björg Thoarensen helsti sérfræðingur þjóðarinnar í stjórnskipunarrétti telur að breyta þurfi stjórnarskránni ef leiða eigi tilskipun Evrópusambandsins um fjármálaþjónustu í lög hér á landi. Tekist var á um þetta á Alþingi í dag og því var atkvæðagreiðslu um málið ítrekað frestað.

Þingsályktun utanríkisráðherra um innleiðingu tilskipunarinnar hefur verið til skoðunar hjá utanríkismálanefnd og stjórnskipunar og eftirlitsnefnd. Þegar tillagan kom til lokaatkvæðagreiðslu á Alþingi í dag, vakti Össur Skarphéðinsson athygli á mati Dr. Bjargar og sagði það breyta stöðunni gagnvart stjórnarskránni.

„Ætlar þá hæstvirtur ráðherra að koma hingað og segja að það sé í lagi að böðlast áfram með málið og þar með að leggja blessun sína yfir það að framkvæmdavaldið gangi á skítugum skóm yfir stjórnarskrána. Hefur ekki hæstvirtur ráðherra svarið eið að stjórnarskránni?“ spurði Össur.

Björg telur að setja þurfi ákvæði í stjórnarskrána sem heimili framsal á fullveldi á vissum sviðum til að EES samningurinn standist. En Norðmenn hafa sett slíkt ákvæði inn í sína stjórnarksrá með tilteknum fyrirvörum.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir með Össuri og vildu að atkvæðagreiðslu um málið yrði frestað svo stjórnksipunar- og eftirlitsnefnd gæti skoðað málið betur.

„Mér finnst ekki koma til greina að við samþykkjum svona mál þegar vafi leikur á þessu. Þegar einn helsti fræðimaður landsins um stjórnarskrána segir að það sé verið að brjóta hana,“ sagði Össur.

Lilja Alfreðsdóttir er á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og er Eygló Harðardóttir staðgengill hennar í embætti utanríkisráðherra. Hún sagði ráðuneyti og utaríkismálanefnd hafa lagt mikla vinnu í málið.

„Þannig að þetta er afstaða þess ráðherra sem hefur flutt þetta mál. Að þetta rúmist innan þeirra heimilda. Menn hafa lagt mikla vinnu í þetta og vandað sig við þá vinnu,“ sagði Eygló.

Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna sagði menn ekki vera að ræða hvaða mál sem er heldur sjálfa stjórnarskrána. Það væri óábyrgt að hunsa skoðanir Bjargar.

„Það er óábyrgt af hendi Alþingis. Það er óábyrgt af hendi forseta og ég skora á forseta að fresta þessari atkvæðagreiðslu í ljósi stöðunnar,“ sagði Svandís.

Starfandi utanríkisráðherra féllst loks á þessi rök ásamt Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis og eftir fund þingflokksformanna með honum var boðað til fundar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þar var óskað eftir því að Björg Thorarensen kæmi fyrir nefndina en hún var þá á leið til útlanda í flugi. Þingfundi var slitið rétt fyrir klukkan sex án þess að atkvæðagreiðslan færi fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×