Skoðun
Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Podium ehf og aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Blómstrandi kvikmyndaiðnaður á Íslandi

Á árinu 2008 voru fyrirtæki sem að einhverju leyti störfuðu við sjónvarps- eða kvikmyndagerð 304 talsins og 2014 voru þau orðin 564. Þetta er áhugavert, sérstaklega í ljósi þeirra vinsælda sem Ísland nýtur sem tökustaður fyrir erlendar stórmyndir. Ísland er í tísku og myndbönd frá frægu fólki baðandi sig í íslenskum náttúruperlum minnka ekki vinsældir landsins. Markaðssókn okkar Íslendinga í þessa veru hefur því skilað sér vel bæði beint og óbeint til íslensku kvikmyndafyrirtækjanna. Afþreyingariðnaðurinn í Ameríku leitar stöðugt leiða til þess að fanga nýja staði til að taka upp stórmyndir og vinsældir Íslands dvína ekki.

Í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði voru 1.300 ársverk árið 2014. Skapandi greinar eru ekki lengur bara listform heldur eru í þeim gríðarleg viðskiptatækifæri, líka á Íslandi. Það er mikil samkeppni um áhugaverða tökustaði og hafa löndin í kringum okkur, líkt og við Íslendingar, brugðist við því með því að endurgreiða hluta framleiðslukostnaðarins í formi skattaafsláttar. Með þessari meðgjöf óx heildarvelta um rúm 37% frá árinu 2009. Þetta kom fram í skýrslu sem viðskiptadeild HÍ, kynnti á dögunum en skýrslan var unnin í samstarfi FRÍSK og SÍK um kvikmynda- og sjónvarpsmarkaðinn.

Ýmsar ástæður eru fyrir vinsældum Íslands sem landi tækifæranna í kvikmyndagerð. Hin óspillta stórkostlega náttúra okkar beinlínis kallar á að vera mynduð. Fagmennska íslensku kvikmyndafyrirtækjanna er líka rómuð. Tækifæri til vaxtar eru mikil á þessu sviði og má segja að stjórnvöld hafi með aðgerðum sínum stuðlað að því að efla erlenda kvikmyndagerð á Íslandi. Endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar hefur verið ein meginstoðin í eflingu innlendrar kvikmyndagerðar og stuðlað að fjölgun verkefna og auknu umfangi sem síðan hefur leitt af sér fjölgun fagstarfa á ársgrundvelli. Á þessu ári voru samþykkt lög um framlengingu á endurgreiðslukerfinu með hækkun úr 20 í 25% að tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Hækkun á endurgreiðsluprósentunni skiptir höfuðmáli í samkeppni við önnur lönd um tökustaði. Fyrirtæki í kvikmyndagerð hafa orðið vör við aukinn áhuga fyrir því að taka upp stórmyndir á Íslandi eftir að greinin frétti af hækkuninni og 2017 lofar góðu. Við erum því með enn eina atvinnugreinina þar sem tækifæri til vaxtar eru mikil.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Brenglun

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.