Sport

Hrafnhildur í úrslit á ÓL: Ég er mjög ánægð en finnst ég eiga meira inni

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir fagnar sætinu í úrslitasundinu á morgun.
Hrafnhildur Lúthersdóttir fagnar sætinu í úrslitasundinu á morgun. Vísir/Anton
Hrafnhildur Lúthersdóttir náði sjöunda besta tímanum í undanúrslitum 100 metra bringusunds kvenna og er fyrst íslenskra kvenna komin í úrslitasund á Ólympíuleikum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir var líka kát eftir sundið en hún hækkaði sig um tvö sæti frá því í sundinu í undanrásunum fyrr í dag.

„Það hefur enginn kona náð þessu en það var náttúrulega Öddi sem náði þessu á sínum tíma. Þetta er mjög frábært. Það var líka gott að vera í sjöunda sætinu þannig að ég var ekki að rétt sleppa inn heldur var aðeins ofar," sagði Hrafnhildur.

Örn Arnarson var fyrir kvöldið í kvöld eini Íslendingurinn sem hafði tryggt sig inn í úrslitasund á Ólympíuleikum en það gerði hann á ÓL í Sydney 2000. Þau eru bæði úr SH í Hafnarfirði.

Hrafnhildur talaði um að hafa verið mjög stressuð í undanrásunum en hún var í miklu betra jafnvægi í undanúrslitasundinu og það sást.

„Ég er samt ennþá þarna niðri og það er því enginn önnur leið fyrir mig en að komast ofar. Ég útfærði þetta sund aðeins betur en ég gerði í dag. Mér leið líka miklu betur og var ekki eins stressuð," sagði Hrafnhildur.

„Ég er mjög ánægð með þetta en mér finnst ég líka eiga meira inni. Ég á hraðara sund því Íslandsmetið er hraðar. Ég vona að ég geti farið nær því í úrslitunum á morgun og tekið þá af þessu hálfa sekúndu í viðbót. Takist það þá ætti ég að geta verið með þeim þarna held ég," sagði Hrafnhildur.

Hún segist hafa fengið góð ráð frá þjálfurum og að hún hafi nýtt sér það í undanúrslitasundinu.

„Þeir sögðu að tökin mín hafi verið alltaf hröð á fyrstu 50 metrunum og ég var að reyna að draga úr þeim á fyrstu 50 en svo átti ég að halda í við þær í snúningnum af því að ég er alltaf svo léleg í snúningnum," sagði Hrafnhildur.

„Það er alltaf gott að fá svona athugasemdir frá þjálfurum og vera líka með svona marga þjálfara hér sem geta séð þetta frá öðrum sjónarhornum," sagði Hrafnhildur.


Tengdar fréttir

Hrafnhildur komin í úrslit

Hrafnhildur Lúthersdóttir komst nú rétt í þessu í úrslit í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×