Körfubolti

Litla Ísland er búið að loka Evrópuhringnum í körfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska tuttugu ára landsliðið í körfubolta tryggði sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins 2017 með sigri á Grikklandi í undanúrslitum B-deildar EM 20 ára liða.

Íslenska liðið hafði betur á móti heimamönnum sem voru dyggilega studdir af sínu fólki en áttu ekki svör við sigurvilja strákanna okkar.

Með því að tryggja 20 ára landsliðinu sæti í A-deildinni hafa þessi stórefnilegu körfuboltastrákar lokað Evrópuhringnum.

Ísland hefur þar með átt sæti í A-deild í öllum flokkum, allt frá A-landsliðinu í Berlín í fyrra niður í 18 og 16 ára liðin sem voru í A-deildinni fyrir um áratug.

Ingi Þór Steinþórsson, einn af þjálfurum sem hafa komið íslensku landsliðinu upp í A-deild, vakti athygli á þessum frábæra árangri íslenskra körfuboltalandsliða á fésbókinni.

KR-ingarnir Ingi Þór Steinþórsson, Benedikt Guðmundsson og Finnur Freyr Stefánsson hafa þar með allir komið íslensku landsliði upp í A-deild en því hefur Kanadamaðurinn Craig Pedersen einnig náð með A-landsliðið.

Ísland mætir Svartfjallalandi í úrslitaleiknum í kvöld en Svartfellingar eru búnir að vinna alla sex leiki sína á mótinu til þessa.

Íslensku strákarnir kannast vel við það að enda sigurgöngu liða á þessu móti en Ísland var fyrst liða til að vinna Rússland, Pólland og Grikkland á EM í ár. Öll voru taplaus þegar kom að leiknum við Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×