Innlent

Ofurölvi staðinn að verki við að stela bát

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Visir/GVA
Lögreglan handtók í nótt karlmann sem grunaður var um að hafa ætlað að stela báti við Hafnarfjarðarhöfn. Tilkynning barst lögreglunni um klukkan hálf eitt þess efnis að bilaður bátur væri í Hafnarfjarðarhöfn og að í honum væri maður að reyna að róa honum.

Ræstur var út bátur frá höfninni til þess að koma þeim bilaða að landi. Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að um borð var karlmaður, sem var ofurölvi, og ekki eigandi bátsins. Maðurinn neitaði að fara að fyrirmælum og því vistaður í fangageymslu, að því er segir í skeyti frá lögreglu.

Tilkynnt var um alls þrjú innbrot í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Alls voru tveir handteknir í tengslum við húsbrotin.

Um klukkan hálf fjögur í nótt var karlmaður handtekinn í Breiðholti, grunaður um húsbrot, heimilisofbeldi, eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu í nótt fyrir rannsókn málsins. Þá var annar maður handtekinn, rétt fyrir klukkan fjögur í nótt, í Ólafsgeisla í Grafarholti. Sá er grunaður um þjófnað, innbrot og rúðubrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×