Innlent

Átta mánaða barn eitt í bíl utan við Smáralind

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur segir engin lög vera um að ekki megi skilja börn eftir ein í bílum en það geti hins vegar varðað við barnaverndarlög.
Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur segir engin lög vera um að ekki megi skilja börn eftir ein í bílum en það geti hins vegar varðað við barnaverndarlög. nordicphotos/getty
„Auðvitað er ekki í lagi að skilja barn eftir eitt í bíl,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, en á sunnudaginn var átta mánaða gamalt barn skilið eftir í bíl á bílastæði Smáralindar.

Í Facebook-hópnum Mæðratips skapaðist umræða um málið en þar segir kona sem kom auga á barnið að hún hafi beðið í um tíu mínútur hjá bílnum til þess að athuga hvort foreldrar barnsins kæmu. Þá hafi hún farið og látið öryggisvörð vita. Samkvæmt upplýsingum frá Smáralind var það vegfarandi sem varð var við barnið í bílnum og tilkynnti um atvikið.

Þjónustuborð Smáralindar hafa aðgang að ökutækjaskrá og geta því fengið upplýsingar um það hver eigandinn sé. Hringt var í móður barnsins sem kom að bílnum um tíu mínútum eftir að hún fékk símtalið. Barnið var því eitt í bílnum í að minnsta kosti tuttugu mínútur.

„Haft var uppi á móðurinni strax en við reynum að leysa úr öllum málum sem koma upp eins og kostur er,“ segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, og bætir við að ekki hafi verið talið tilefni til að hringja í lögreglu. Sólin skein ekki á bílinn og rifa var á rúðunni.

Halldóra segir að undanfarið hafi komið fleiri tilkynningar um börn sem skilin eru eftir í bílum inn á borð Barnaverndar.

„Það er aukin umræða og fólk veltir þessu fyrir sér,“ segir hún og bætir við að á árum áður hafi verið hefð fyrir því að það væri í lagi að skilja börn eftir í smá tíma. Það sé hins vegar að breytast. „Þegar við fáum slíkar tilkynningar er það oftast vegna þess að fólki ofbýður tímalengdin. Oftast er það þó lögreglan sem fær tilkynningarnar og hún tilkynnir okkur ef foreldrar koma ekki mjög fljótlega á staðinn,“ segir Halldóra og ítrekar að henni finnist meginreglan vera sú að ekki eigi að skilja börn eftir ein úti í bíl.

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×