Innlent

Hjólafantur hjólaði niður hund á Kársnesinu

Jakob Bjarnar skrifar
Stórhættulegur og dónalegur hjólreiðamaður hjólaði Móra hennar Guðnýjar niður nú í hádeginu.
Stórhættulegur og dónalegur hjólreiðamaður hjólaði Móra hennar Guðnýjar niður nú í hádeginu.
Guðný Gústafsdóttir segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við hjólreiðamann sem hjólaði á hund hennar á göngustíg á Kársnesinu. Maðurinn sýndi af sér einkar fruntalega framgöngu.

„Hann koma í fullum skrúða og blússandi ferð hjólaði á hundinn minn á göngustígnum sunnanmegin á Kársnesinu. Stíg sem er fyrst og fremst merktur sem göngustígur. Þar sem allskonar fólk er á ferðinni; börn og fullorðið fólk, fatlaðir og ófatlaðir, fólk með lítil börn og fólk með hunda. Skokkarar og hjólreiðafólk,“ segir Guðný.

Gangandi vegfarendur í stórhættu

Hún segist nýverið hafa hitt tvo fullorðna menn á sitthvorum göngutúrnum sem hafi nánast verið keyrðir niður af hjólreiðamönnum.

„Allt of margt hjólreiðafólk hjólar alltof hratt, ekki með bjöllur, hægir ekki á sér og tekur ekki tillit til annarrar umferðar um stíginn. Sumt hjólreiðafólk ferðast í hópum, leggur allan stíginn undir sig og gefur vel í.“

Reiðhjólafólki hefur fjölgað gríðarlega á umliðnum árum og fara um sem þeim hentar.
Hjóladóni

Atvikið sem Guðný lenti í var í hádeginu í dag. Maðurinn sem hjólaði aftan að henni og yfir hundinn Móra, sem er blendingur, var karl á miðjum aldri, gráhærður, með alskegg og gleraugu.

„Hann sá ekkert athugavert við þetta. Þegar ég benti honum á að vera með bjöllu á hjólinu og hægja á sér, þetta væri jú göngustígur, sagði hann mér að fylgjast betur með. Það var sumsé feill við minn útbúnað að vera ekki með augu í hnakkanum?!“

Guðný segir manninn ekki hafa beðist afsökunar og lét sig engu skipta afdrif hundsins. „Þegar ég bað um númerið hans ef hundurinn hefði slasast hnussaði hann og spítti í burtu,“ segir Guðný. Sem sér mest eftir því að hafa ekki verið með símann sinn við höndina, til að taka mynda af þessum hjólareiðafanti.

Sem betur fer virðist ætla að reynast í lagi með hundinn, en það er ekki þessum hjólamanni að þakka. Vísir hefur í gegnum tíðina fjallað um svipuð tilvik, þar sem hjólreiðamenn hafa sýnt vítavert gáleysi. Víst er að reiðhjólafólki hefur fjölgað mjög á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×