Innlent

Aftur í fangelsi vegna gruns um að hafa svipt tvær stúlkur frelsi sínu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Annar maðurinn afplánar nú eftirstöðvar dóms vegna meintrar frelsissviptingar en hinn maðurinn losnar úr gæsluvarðhaldi í dag.
Annar maðurinn afplánar nú eftirstöðvar dóms vegna meintrar frelsissviptingar en hinn maðurinn losnar úr gæsluvarðhaldi í dag. vísir/anton brink
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að maður sem grunaður er um að hafa frelsissvipt tvær stúlkur þann 27. júní síðastliðinn skuli sæta afplánun á 105 dögum á eftirstöðvum refsingar sem honum var veitt reynslulausn á í ágúst í fyrra.

Maðurinn er grunaður um að hafa í félagi við annan mann frelsissvipt stúlkurnar tvær á heimili annarrar þeirra síðastliðinn mánudag en fyrst var greint frá málinu í Fréttablaðinu í dag.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að frumrannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að málið tengist peningaskuld stúlknanna sem mennirnir hafi verið að innheimta en önnur stúlkan er kærasta annars mannsins sem einnig var kærður vegna málsins. Hann var hnepptur í gæsluvarðhald sem rennur út í dag en ekki verður farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.  

Lýsingar í dómnum á frelsissviptingu eru heldur ófagrar en þar segir meðal annars að frelsissviptingin hafi staðið yfir í sex klukkustundir og eru eftirfarandi lýsingar hafðar eftir stúlkunum í greinargerð lögreglu:

„Kváðu þær að á meðan þeim hafi verið haldið hafi þeim og ættingjum þeirra verið hótað lífláti, klippt hafi verið í hár þeirra og borinn hnífur að hálsi A. Kvað hún Y hafa verið með miklar hótanir við B og einnig sett sleif ofan í háls hennar. Þá hafi þær borið um í skýrslutöku hjá lögreglu að kærði X hefði beitt töng með gulu skafti til að merja tá á B og einnig hefði hann beitt tönginni á putta á B svo á sá. Auk þess kváðu þær Y hafa troðið peysu upp í B til að heyrðist ekki í henni þegar tönginni hafi verið beitt. Loks kváðust þær hafa verið haldi inni í íbúðinni frá kl. 04:00 þar til um morguninn og hafi þeim þá verið hleypt út og þær farið á kaffihús í nágrenninu.“

Dóm Hæstaréttar má sjá hér.


Tengdar fréttir

Taldir hafa svipt unga konu frelsi

Tveir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni vegna gruns um að hafa svipt barnsmóður annars mannsins og aðra stúlku frelsi og beitt hana ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×