Skoðun

Hönnun og heilsa

O. Lilja Birgisdóttir skrifar
Fallega hannað umhverfi hefur áhrif á okkur flest. Tökum Hörpuna sem dæmi, maður gengur inn í listina og upplifir nýja stemningu í hverju horni. Eða Perluna sem trónir efst á Öskjuhlíðinni í dásamlega fallegu umhverfi. Á Íslandi má finna margar fagrar byggingar, vinnustaði, heimili, húsgögn, tæki og tól. Hönnun skiptir máli.

Fyrsta upplifun er oftast góð en því miður er það stundum svo að gleymst hefur að huga að ýmsum þáttum í hönnuninni sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu til lengri tíma. Margar rannsóknir eru til varðandi áhrif umhverfis á heilsu eins og t.d. sjónræn áhrif í formi birtu og litavals, hljóðvistar og hönnunar húsbúnaðar. Vinnuferlar og viðmót tæknibúnaðar getur einnig haft áhrif. Vinnuvistfræðin fjallar um samspil manns og umhverfis, áhrif á líðan og heilsu.

Með sólgleraugu í vinnunni

Hvers vegna þarf starfsfólkið í afgreiðslu Hörpunnar helst að vera með sólgleraugu í vinnunni? Hvernig skyldi kokkunum í Perlunni líða, þurfa þeir kannski að hlaupa upp og niður stiga eða vinna við erfiðar og þröngar aðstæður? Hvað með fallegu háu glerbyggingarnar sem hafa skotist upp hér og þar um höfuðborgina, eru þær hannaðar bæði með hönnun og heilsu í huga? Fær starfsfólkið höfuðverk og vöðvabólgu vegna birtu og glampamyndunar? Þarf að vera með aukapeysu vegna kuldans sem streymir frá glerinu á köldum dögum?

Dæmi má einnig taka varðandi hönnun húsgagna, fagurlega hannaður stóll sem fáum þykir gott að sitja í. Umbúðir sem eru fallega hannaðar en þegar þarf að opna þær þá þarf verkfæri og kraft til verksins. Heimilistæki sem eru með svo flóknar stýringar að það þarf verkfræðing til að skilja þær. Tölvukerfi sem eru svo margþætt að nauðsynlegt er að hafa púða á veggnum til að banka höfðinu í reglulega. Heilsan skiptir máli.

Hönnuðirnir gleyma sér

Því miður er það svo að hönnuðirnir sem eiga verkin gleyma sér oft í sköpuninni og fegurðinni sem síðar kemur mögulega niður á líðan þeirra sem nota eiga hönnunina eða vinna í umhverfinu í lengri tíma.

Vinnuvistfræðingur myndi ekki endilega hanna sérlega fagurt umhverfi, tæki eða tól, en vel notendahæft væri það. Þess vegna er það svo mikilvægt að við vinnum saman að hönnun, notum þá þekkingu sem til er á öllum sviðum. Nýtum okkur þau fræði sem við eigum, þá kunnáttu sem fagfólkið hefur og hönnum með heilsuna í huga. Hönnun og heilsa skipta máli.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×