Innlent

Einar fékk gullmedalíu norræna augnlækna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einar er fyrstur Íslendinga til að fá þessa viðurkenningu.
Einar er fyrstur Íslendinga til að fá þessa viðurkenningu.
Einar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítalans, tók við Gullmedalíu norrænna augnlækna á þingi þeirra í Árósum um helgina. Einar er fyrstur Íslendinga til að fá þessa viðurkenningu.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að orðunni fylgi mesti heiður sem norrænir augnlæknar veita en hana fá einungis þeir sem hafa skarað fram úr í rannsóknum á augnsjúkdómum.

Einar, sem flutti heiðursfyrirlestur á þingi norrænu læknanna um helgina, er mikilsvirtur vísindamaður og einn sá afkastamesti við Háskóla Íslands og Landspítala.

Var hann t.d. valinn heiðursvísindamaður Landspítala fyrir fáeinum árum og haustið 2014 tók hann við sérstökum heiðursverðlaunum Danska augnlæknafélagsins fyrir afar mikilvægt framlag til rannsókna í augnlæknisfræði á alþjóðavettvangi.

Hann hlaut heiðursverðlaun Ásu Guðmundsdóttir Wright fyrir árið 2008 en sama ár hlaut hann svokölluð Jules Gonin verðlaun. Þau eru ein merkustu verðlaun sem veitt eru í heiminum á sviði augnlæknisfræði.

Norræna Gullmedalían, sem Einar hlaut um helgina, var fyrst veitt árið 1931 og hefur verið veitt á þingum norrænna augnlækna með hléum. Tíu augnlæknar og vísindamenn fengu orðuna fram til 1977, en síðan hefur hún verið veitt annað hvert ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×