Körfubolti

Ólafur Ólafsson heim í Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Vísir/Valli
Grindvíkingar eru búnir að fá mikinn liðstyrk í körfuboltanum því Ólafur Ólafsson er kominn heim frá Frakklandi og mun spila með Grindavíkurliðinu í Domino´s deildinni í körfubolta næsta vetur.

Heimasíða Grindavíkur segir frá þessum gleðitíðundum fyrir Grindvíkinga en Ólafur snýr nú aftur til Grindavíkur eftir eins árs dvöl erlendis. Ólafur spilaði með St. Clement í NM2 deildinni í Frakklandi síðasta tímabilið og var að skora 14 stig að meðaltali í leik.  

„Grindvíkingar höfðu samband við mig og buðu mér að koma heim og spila. Við konan fórum vel og vandlega yfir þetta og spjölluðum lengi áður en ákvörðun var tekin. Konan komst svo inn í Háskólanám sem spilar stórt inní ákvörðun mína sem og að bræður mínir," sagði Ólafur í viðtali við karfan.is en þjálfari Grindavíkurliðsins er Jóhann Þór Ólafsson og fyrirliði liðsins er Þorleifur Ólafsson.

„Jóhann er náttúrlega að þjálfa og hefur kennt mér gríðarlega mikið og ég sé fyrir mér að hann eigi eftir að halda því áfram. Í kjölfarið sagðist miðju bróðirinn (Þorleifur Ólafsson) taka sitt síðasta tímabil með mér. Þeir eru búnir að hjálpa mér rosalega mikið í gegnum minn feril og ég ákvað því að koma heim og spila bæði fyrir og með þeim." sagði Ólafur við karfan.is.

Grindvíkingar höfðu þegar misst tvo lykilmenn frá því á síðasta tímabili en Jón Axel Guðmundsson er farin út háskólanám í Bandaríkjunum og Jóhann Árni Ólafsson ætlar að fara heim í Njarðvík.

Ólafur lék síðast með Grindvíkingum tímabilið 2014-15 en hann var þá með 14,9 stig og 7,2 fráköst að meðaltali í leik. Hann varð Íslandsmeistari með Grindavík 2012 og 2013 og bikarmeistari 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×