Skoðun

Ættum við að vinna saman?

Magnús Orri Schram skrifar
Það var húsfyllir í Iðnó síðasta laugardag þegar fólk úr stjórnarandstöðu og utan flokka velti því upp hvort grundvöllur sé til samstarfs að loknum næstu kosningum. Á fundinum kom fram skýr vilji til samvinnu. Í fyrsta lagi er mikill áhugi fyrir öðruvísi stjórnmálum. Heiðarlegri nálgun þar sem áhersla er lögð á samræðu og rökræðu sem leið til ákvarðanatöku. Stjórnmálum framtíðarinnar. Í öðru lagi var samhljómur hvað snertir lykilverkefni næstu ríkisstjórnar. Má þar nefna endurreisn heilbrigðiskerfisins og minni kostnaðarhlutdeild sjúklinga, ný stjórnarskrá og lýðræðisumbætur, úrbætur í húsnæðismálum, umhverfisvernd og sjálfbærni, og ný stefna í nýtingu auðlinda. Þarna var fólk sem vill hugsa opið frekar en lokað, um framtíð frekar en fortíð og vill grænar áherslur frekar en gráar.

Styrkleiki hópsins kom líka skýrt fram í viðhorfi hans til ágreiningsmála. Í anda nýrra vinnubragða og opinnar ákvarðanatöku eru allir sammála um virkara lýðræði. Dæmi er afstaðan til ESB. Aðilar eru ósammála um aðild en telja rökrétt næsta skref að þjóðin ákveði hvort hún sækir um eða ekki.

Ég tel að þessir hópar eigi að þétta samstarf sitt. Þegar fólk er sammála um hvernig það vill nálgast ákvarðanatöku í stjórnmálum og er sammála um lykilverkefni nýrrar ríkisstjórnar – er mikilvægt að setja verkefnin í fyrsta sæti frekar en egó og stjórnmálaflokka.

Samfylkingin á að taka af skarið í þessum efnum. Fyrir sextán árum var Samfylkingin stofnuð til að leiða saman jafnaðarmenn úr mörgum áttum til að starfa saman. Nú getur Samfylkingin aftur beitt sér fyrir því að leiða saman fólk – sem er sammála um lykilverkefnin en starfar í ýmsum stjórnmálasamtökum. Þetta verkefni getum við tekið í nokkrum skrefum og á nokkrum árum. Aðalatriðið er að við freistum þess að láta verkefnin ráða för. Þau skipta jú mestu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 22. apríl.




Skoðun

Sjá meira


×