Innlent

Samtök ferðaþjónustunnar líða ekki undirboð á vinnumarkaði

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Frést hefur af fyrirtækjum sem vilja ráða til sín sjálfboðaliða í störf sem ættu að vera launuð.
Frést hefur af fyrirtækjum sem vilja ráða til sín sjálfboðaliða í störf sem ættu að vera launuð. vísir/Andri Marinó
„Í okkar huga er á kristaltæru að fyrirtæki, hvort heldur sem er í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum, eiga aldrei að byggja samkeppnisforskot sitt á sjálfboðavinnu,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, og bætir því við að það gangi ekki upp í íslenskri ferðaþjónustu ef slík undir­boð eru stunduð í samkeppni við fyrirtæki sem stunda heiðarlega og ábyrga atvinnustarfsemi.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, ræddi hagnýtingu ferðaþjónustufyrirtækja á sjálfboðaliðum á málþingi Vinnumálastofnunar í síðustu viku. Hann gagnrýndi Samtök ferðaþjónustunnar og sagði aðgerðaleysi þeirra áberandi.

Skapti segir samtökin hvetja fyrir­tæki til að hlíta kjarasamningum og standa skil á sköttum og skyldum. „Það er afar brýnt að fyrirtæki í öllum atvinnugreinum standi klár á skyldum sínum gagnvart starfsmönnum og samfélaginu.

„Við líðum ekki að brotið sé á starfsfólki og að okkar mati er mikil­vægt að sótt sé að þeim fyrirtækjum sem ekki virða lágmarksákvæði kjarasamninga,“ segir hann.

Skapti tekur fram að á síðasta ári hafi rúmlega nítján þúsund manns starfað við ferðaþjónustu um land allt. „Þau tilvik sem hafa komið upp að undanförnu eru of mörg, en þó verður að hafa í huga að þau eru aðeins brotabrot af heildinni,“ segir Skapti. „Á mörgum stöðum er regluverk í kringum ferðaþjónustuna mjög veikt og hefur ekki þróast í takt við þroska greinarinnar.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×