Innlent

Væri „ógeðslega gaman“ að stofna Sjónvarpsflokkinn og bjóða fram

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Gnarr
Jón Gnarr Vísir/ernir
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, grínisti og núverandi ritstjóri innlendrar dagskrár Stöðvar 2, boðaði pólitíska endurkomu sína í viðtali við Svenska Dagbladet í liðinni viku. Sagðist hann ætla að stofna flokk sem hann kallar Sjónvarpsflokkinn og bjóða fram í þingkosningum sem verða í haust.

Í samtali við Vísi segir Jón að honum finnist Sjónvarpsflokkurinn mjög sniðug hugmynd. Hins vegar sé ólíklegt að flokkurinn bjóði fram í haust þar sem Jón segist hafa nóg annað að gera en að stofna stjórnmálaflokk og fara í framboð.

En myndi þig langa að gera þetta?

„Já, þetta væri ógeðslega gaman ef maður hefði tíma en núna er ég bara á kafi í þáttunum um borgarstjórann. Það klárast einhvern tímann í sumar og þá fer ég kannski að spá betur í þetta. Annars er ég nú líka bara svona að segja þetta því mér finnst svo leiðinlegt þegar ég hef ekkert að segja við blaðamenn sem eru að koma erlendis frá. Ég er nefnilega svo meðvirkur þannig að ég vil segja eitthvað sem fólk getur notað. En þetta er eitthvað sem ég gæti alveg gert ef sá gállinn væri á mér, að henda í svona stjórnmálaflokk,“ segir Jón í samtali við Vísi og bætir við að ef hann hefði ekkert að gera myndi hann stofna Sjónvarpsflokkinn.

„Það yrði allt eins og í sjónvarpinu, bara aðeins betra.“

Ein af þeim hugmyndum sem Jón viðrar í viðtalinu við Svenska Dagbladet um Sjónvarpsflokkinn er að þingmenn hans myndu aldrei mæta í þingsal heldur myndu þingmennirnir tala í gegnum tölvuskjá.

„Þetta væri bara svona eins og Ingvi Hrafn á ÍNN, bara talað í gegnum Skype eða eitthvað þannig, og vera aldrei líkamlega á staðnum. Það er bara ákveðið konsept og mér finnst þetta alveg ógeðslega fyndið af því ég held að þetta sé ekkert bannað með lögum. Þú getur bara verið einhver tölva á borði,“ segir Jón.

 

Eins og áður segir er þó ólíklegt að Sjónvarpsflokkurinn bjóði fram í haust.

„Það er aldrei að vita,“ segir Jón samt. „Ef þetta verður orðið eitthvað mjög hallærislegt þarna í haust og við bara komin á lista yfir hallærislegustu þjóðir heims þá gæti maður verið tilneyddur að gera Sjónvarpsflokkinn og eitthvað svona sem talar til fólks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×