Innlent

Hreinsa útblástur og framleiða koltvísýring

Svavar Hávarðsson skrifar
Kristín Vala Matthíasdóttir
Kristín Vala Matthíasdóttir
HS Orka mun á næstu mánuðum setja upp tilraunastöð við orkuver fyrirtækisins í Svartsengi til að hreinsa brennisteinsvetni (H2S) úr gasi sem fellur til við nýtingu jarðvarma. HS Orka hefur skrifað undir samstarfssamning við danska hátæknirisann Haldor Topsøe um byggingu tilraunastöðvarinnar – en stöðin, sem verður fyrst sinnar tegundar, byggir á tækni og sérþekkingu danska fyrirtækisins.

Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Auðlindagarðs HS Orku, segir að eftir að stöðin hefur verið sett upp sé komin umhverfisvæn og hagkvæm lausn til þess að fjarlægja brennisteinsvetnið úr gasstraumi frá orkuverinu, minnka með því lykt og samhliða framleiða hreinan koltvísýring (CO2).

„Afkastageta þessarar stöðvar er um 7.500 tonn af koltvísýringi,“ segir Kristín Vala um framleiðslugetu stöðvarinnar, en hér á landi eru í dag framleidd um 3.000 tonn af koltvísýringi og því ljóst að framboðið verður hér innanlands mun meira en hingað til. Kristín Vala segir að þegar allt er talið sé um framkvæmd að ræða sem muni kosta um 300 milljónir íslenskra króna, en rekstur tilraunastöðvarinnar og framleiðsla á koltvísýringi hefst strax í febrúar eða mars 2017, ef allt gengur að óskum.

Við nýtingu á jarðvarma fellur alltaf til nokkurt magn jarðhitagastegunda, og þeirra á meðal koltvísýringur og brennisteinsvetni. Koltvísýringurinn er verðmæt afurð og nýtist við margs konar starfsemi.

„Möguleika til nýtingar á koltvísýringi er að finna í iðnaðar- og matvælaframleiðslu, garðyrkju, á sjúkrahúsum svo fátt eitt sé talið,“ segir Kristín en útflutningur á koltvísýringi kemur ekki til greina í augnablikinu.

Aðferð Haldor Topsøe fjarlægir brennisteinsvetni úr gasinu sem verður dælt aftur niður í jörðina í uppleystu formi og kemur til með að hafa jákvæð áhrif á rekstur niður­dælingar við Svartsengi.

Það fellur að markmiðum HS Orku um að nýta allt sem til fellur við nýtingu þeirrar auðlindar sem fyrirtækið nýtir og er treyst fyrir, segir Kristín Vala. „Þetta er jákvætt skref fyrir okkur og fellur vel að markmiðum Auðlindagarðsins, samfélags án sóunar og er viðbót við núverandi fjölþætta starfsemi í Auðlindagarðinum.“

Sex orkuver í SvartsengiSvartsengisvirkjun stendur á hrauni sem rann árið 1226 og heitir Illahraun.

Boranir eftir gufu á Svartsengissvæðinu hófust árið 1971. Strax við virkjun gufuhola fór skiljusjórinn að mynda affallslón sem í dag er hið fræga Bláa lón. Vatni var hleypt á fyrstu húsin í Grindavík árið 1976 og ári síðar, 1977, á fyrstu húsin í Njarðvík.

Orkuverin í Svartsengi hafa verið byggð upp í áföngum. Það fyrsta (orkuver 1) var byggt á árunum 1977-1979 og það síðasta (orkuver 6) var byggt á árunum 2006-2008.

Framleiðslugeta orkuversins í Svartsengi er um 75 MW í raforku og um 150 MW í varma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×