Innlent

Verkamenn á fullum launum borða hádegismat hjá hjálparsamtökum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nokkuð hefur borið á því undanfarið að verkamenn í fullri vinnu fari á Kaffistofu Samhjálpar í hádeginu til að freista þess að fá þar ókeypis máltíð. Bjarni Alfreðsson, verkefnastjóri Kaffistofunnar, hefur síðustu vikur þurft að vísa burt hópum frá þremur mismunandi fyrirtækjum.

Á kaffistofu Samhjálpar getur heimilislaust fólk fengið heitan mat. Bjarni segir að á uppgangsárunum hafi verkamenn sem störfuðu í nágrenni við Kaffistofuna, til að mynda við Hörpu, komið margir saman á merktum fyrirtækjabílum og snætt hádegismat hjá hjálparsamtökunum. Hann hélt að sá tími væri liðinn en undanfarið hefur borið á því að erlendir verkamenn í fullri vinnu komi þangað í hádeginu.

„Þetta byrjaði núna með vorinu. Bara fljótlega eftir áramót komu hérna einhverjir tveir menn merktir fyrirtækjum tvo daga í röð. Ég fattaði þetta ekki alveg fyrsta daginn en svo fór ég náttúrlega bara að fylgjast með og setti smá í gang eins og maður gerir, og þá fundum við tvo aðra hópa sem voru að koma, menn í fullri vinnu,“ segir Bjarni.

Hann kveðst ekki vita hvort það sé vinnuveitandi eða einhver annar sem vísi mönnunum á að sækja hádegismat til hjálparsamtaka. Þeir sem komi séu allir útlendir iðnaðarmenn. Í síðasta mánuði segist Bjarni hafa þurft að vísa burt verkamönnum frá þremur mismunandi fyrirtækjum.

„Ég kannski geri það ekki í fyrsta áfanga. Ég kanna náttúrlega hvort þessir menn séu að styrkja Samhjálp eða eitthvað, maður leitar eftir því. En það voru bara menn að koma beint, menn á fullum launum einhverstaðar. Ég er búin að vísa þremur út, eða mönnum frá þremur kompaníum. Það er svona víða pottur brotinn. Þetta er ekki til að hressa upp á sálartetrið hjá okkur sko,“ segir Bjarni Alfreðsson.


Tengdar fréttir

Rifist um stólana á Kaffistofu Samhjálpar

Starfsfólk Kaffistofu Samhjálpar segir ásókn þangað hafa margfaldast á undanförnum mánuðum og að starfsemin sé nú komin að þolmörkum. Verkefnastjóri þar gagnrýnir úrræðaleysi stjórnvalda en um áttatíu prósent þeirra sem leita á kaffistofuna eru útlendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×