Lífið

Það er sáluhjálp í allri sköpun

Magnús Guðmundsson skrifar
Helgi Björnsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir eru farin að hlakka til þess að sýna áhorfendum afrakstur æfinganna á Mamma mia í Borgarleikhúsinu.
Helgi Björnsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir eru farin að hlakka til þess að sýna áhorfendum afrakstur æfinganna á Mamma mia í Borgarleikhúsinu. Visir/Ernir
Mamma mia, here I go again / My my, how can I resist you?“ Það þekkja allir upphafslínurnar í einum af óteljandi smellum sænsku dægurlagasveitarinnar ABBA. Mamma mia er líka titillag söngleiksins sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu næstkomandi föstudag eftir margra ára sigurför um heiminn og samnefnda vinsæla kvikmynd. Í Borgarleikhúsinu verða Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Helgi Björnsson í tveimur af aðalhlutverkunum og þau gáfu sér tíma frá þrotlausum æfingum til þess að spjalla aðeins um ævintýrið sem hefur tekið yfir hversdaginn og lífið í leikhúsinu þar sem ABBA er alltumlykjandi þessa dagana og kannski allt eins gott að kunna að meta tóna sveitarinnar.

Þetta er cross-over

„Ég er ABBA-kona og hef alltaf verið. Það er ekki annað hægt. Ég er búin að syngja þetta frá því ég man eftir mér enda ætlaði ég að verða poppsöngkona. Ég ætlaði að verða Agnetha í ABBA enda á ég meira að segja sænskar ABBA plötur og þar eru ABBA lög sem enginn veit um en ég gat sungið á sænsku,“ segir Jóhanna Vigdís og ljómar við tilhugsunina en Helgi hallar sér aftur og játar að vera kannski ekki alveg á sama stað og Hansa, eins og Jóhanna Vigdís er kölluð, í aðdáun sinni á sveitinni. „Ég var ekki alveg þarna á þessum árum. Það var önnur tónlist sem heillaði mig meira á áttunda áratugnum en ABBA. Ég var meira í böndum á borð við Traffic­ og Stones á þessum tíma og svo var ég bara kominn í Genesis og allskonar prog-rokk en Stones var nú eiginlega það sem var ráðandi.

En auðvitað hefur maður dillað sér við þessi lög á böllum og látið þetta ná sér. Ég man að þegar Knowing Me, Knowing You kom á sínum tíma þá fannst mér það flott. Það er eitthvað í þessu hugsaði ég með mér og ég fæ að syngja það í sýningunni sem er mjög gaman. En það falla allir fyrir þessu fyrr eða síðar því þetta er cross-over eins og meistari Pétur Kristjáns sagði um þessa tónlist. Þetta fer yfir öll landamæri og þvert á allan aldur og nær öllum og við finnum það á áhuganum á sýningunni.“

Þetta er bara frí

Það er dálítið sérstakt að enn er tæp vika til frumsýningar en engu að síður er Mamma mia mest selda sýningin á landinu þannig að Helgi og Hansa sjá fram á að vera að sýna sex kvöld í viku út júnímánuð. Þau virðast þó ekki láta þessar fyrirfram vinsældir slá sig út af laginu. „Nei, þetta er bara ánægjulegt,“ Segir Hansa og bætir við: „Við finnum fyrir þessum áhuga og spenningi fólks og það er mikilvægt að virkja þessar væntingar í að standa sig vel og að standa undir þessu. En auðvitað fylgir því ákveðið álag að sýna svona þétt og að vera að vinna öll kvöld.“

„Þetta eru kannski minni viðbrigði fyrir mig þar sem ég hef verið líka í tónlistinni meðfram leiklistinni og þar getur þetta átt það til að verða normið. Ég reyndar tók upp á því á haustið 2014 þegar ég átti þrjátíu ára útgáfuafmæli að halda upp á það með því að halda þrjátíu tónleika á þrjátíu og fimm dögum á tónleikaferðalagi.“ Hansa lítur á Helga eins og hann sé galinn. „Gerðirðu hvað? Var þetta ekki hrikalegt?“ Helgi hugsar sig um bendir svo á að hluti af því sem hafi gert þetta erfitt sé að gera allt sjálfur.

„Þetta var bara ég og einn gítarleikari með mér og svo þurftum við að keyra á milli staða, stilla upp og allt þetta vesen. Fyrstu tvær vikurnar voru fínar en svo fór þetta að verða erfitt í þriðju vikunni og restin er eiginlega í móðu. Þannig að þetta líf í leikhúsinu þar sem maður mætir bara í smink og það er séð um allt fyrir mann – það er bara frí fyrir mig,“ segir Helgi og glottir eins og sönnum sjarmör hæfir.

Helgi og Hansa segja að það ríki góður andi í Borgarleikhúsinu. Visir/Ernir
Rútínan og fínstilling

Hansa hefur fyrri reynslu af svona vinsælum sýningum, m.a. frá Mary Poppins, og hún segir að óneitanlega fylgi svona keyrslu talsvert álag. „Þetta er óneitanlega mikið álag en það gefur manni líka mjög mikið á móti og er mjög gaman. Auðvitað er þetta ekki fjölskylduvænt að vera alltaf að vinna á kvöldin og eiga bara frí einu sinni í viku en svo á maður frí á daginn. Sumum finnst kannski erfitt að vera að leika sömu sýninguna kvöld eftir kvöld en mér finnst rútínan góð. Sýningar hafa líka tækifæri til þess að þróast svo skemmtilega ef maður fær að sýna þær svona oft, ólíkt því að vera að sýna á kannski tíu daga fresti.“

En er svigrúm fyrir þróun í sýningu eins og Mamma mia þar sem nánast hvert augnablik er vandlega planað? „Það er einmitt áskorun leikarans,“ segir Helgi, „að gera þetta alltaf eins og þetta sé í fyrsta skipti. Það getur falist í ótrúlega litlum hlutum sem eru kannski bara að gerast inni í hausnum á þér. Maður getur verið að fínstilla í huganum og finna sér nýjar ætlanir án þess að áhorfandi sem sér kannski bæði fimmtu og tuttugustu og fimmtu sýningu sjái þar nokkurn mun á, enda á hann ekki að gera það.“ Hansa tekur undir þetta og segir að þetta snúist einmitt meira um hvernig leikarinn fóðrar sig í því sem hann er að gera.

Öll í sama liði

Helgi og Hansa eiga einmitt nú fyrir höndum að verða ástfangin sex kvöld vikunnar á meðan sýningin heldur áfram að ganga fyrir fullu húsi en eins og Helgi bendir á þá er þetta órjúfanlegur hluti af tækni leikarans. „Við erum öll alltaf með mismunandi grímur sem við notum við ólíkar aðstæður. Þegar við hittum yfirmanninn eða förum í bankann eða til læknisins eða erum með fjölskyldunni. Við erum alltaf að takast á við lífið í hlutverkum ef svo má segja og hluti af tækni leikarans er að virkja þetta og sýna það út á við á meðan aðrir reyna að dylja þennan leik. Í okkar starfi sem leikarar er svo líka galdurinn að vera ekki að leika of mikið heldur að vera sem næst sjálfum sér. Að vera einlægur.“

Þegar komið er inn í alrými Borgarleikhússins að morgni dags þegar fólk er að koma inn til vinnu er eftirtektarvert hversu opin og hlýleg samskipti fólksins eru. Hansa segir að efalítið hafi starfið ákveðin áhrif á persónuleika hver og eins sem og samskipti innan stéttarinnar. „Við erum mjög vön að vera opin. Vinnan gengur út á það og rásirnar eru opnar og þetta kemst upp í vana.“ „Já, nákvæmlega,“ segir Helgi. „Við erum að vinna svo náið saman að það er ekkert annað í boði. Ef þú ætlar að sýna tilfinningar á leiksviði, hvort sem það er ást, hatur, gleði eða eitthvað annað, þá þarftu að vera tilbúinn til þess að pissa í buxurnar fyrir framan alla. Þarft að vera tilbúinn til þess að blotta þig á sviði fyrir framan fullan sal af fólki. Þarna fer maður yfir einhver sársaukamörk sem venjulegt fólk er ekkert að takast á við í sinni vinnu frá degi til dags. En þetta er hluti af okkar starfi og það gerir það að verkum að við erum nær hvert öðru af því að við þurfum að vera það.“

„Þetta snýst líka um traust og umhverfið byggir svo mikið á trausti,“ bætir Hansa við. „Það er mikið traust í þessu húsi og andinn er góður. Við erum öll í sama liðinu og það skapar hlýtt, traust og opið umhverfi.“

Ekki bara ein ástarsaga

Það má segja að þær aðstæður sem hafa myndast í sögunni sem er sögð í Mamma mia séu í raun í ákveðin andstæða þessa opna og hlýja samfélags þar sem tilfinningaleg afmörkun og þögn hafa leitt af sér áratuga aðskilnað elskenda. Hansa tekur undir þetta. „Ef það á að fara að tala um einhvern boðskap í verkinu þá er það einmitt að við reynum að vera heiðarleg við okkur sjálf og okkar tilfinningar. Líka það að við leyfum öðrum að njóta sín og vera eins og þeir eru ef við lítum til sambands mæðgnanna. Lærdómurinn er að horfast í augun við sjálfan sig og fella niður grímuna sem Helgi var að tala um áðan.“

„Já og að lífið er ekki búið þó svo að þú sért kannski kominn á eða yfir miðjan aldur,“ bætir Helgi við. „Það er alltaf hægt að byrja á einhverju og það er ekki háð neinum aldursmælistikum. Verkinu er stillt meðvitað upp þannig að þessar aðalpersónur eru ekki ungt fólk heldur komin yfir miðjan aldur og það er ákveðin pæling í því.“ 

„Nákvæmlega,“ segir Hansa og minnir á að svo erum við líka með unga parið þannig að þetta er í raun ekki bara ein ástarsaga. „Við erum líka með nostalgíuna yfir því hvað það var yndislegt að vera ungur og ástfanginn og svo þessi punktur hans Helga að það er aldrei of seint að finna ástina. Ég er til að mynda svona „late bloomer“ og fann ekki stóru ástina í lífi mínu fyrr en ég var orðin þrjátíu og fimm. Þannig að það er svona pínu Mamma mia í mér.“

Visir/Ernir
Sáluhjálparatriði

Eftir Mary Poppins tók Hansa líka upp á því að breyta til og fara í skóla og stefnir á að klára MBA frá Háskólanum í Reykjavík í vor. „Þetta er allt annar heimur en leikhúsið en það sem kom mér svo skemmtilega á óvart og var eiginlega það sem ég hef lært hvað mest af í HR, eru samnemendur mínir og hvað þau eru skapandi og flott og hugsa út fyrir kassann. Þannig að ég hugsaði bara með mér, „já, venjulega fólkið“, það er bara miklu meira skapandi en maður heldur og ég er búin að læra alveg helling.“

Helgi segir að við þurfum einmitt öll að vera meðvituð um að nýta sköpunarkraftinn sem í okkur býr. „Ég ætla til að mynda að nýta tímann sem ég á eftir að hafa á daginn á meðan Mamma mia er í sýningu til þess að læra á píanó. Ég kann á gítar en hef aldrei gefið mér tíma til þess að læra á píanó sem er eitthvað sem mig hefur lengi langað til þess að gera og nú er rétti tíminn til þess að láta verða af því. Það að nýta sköpunarkraftinn sem býr innra með manni er nefnilega sáluhjálparatriði. Ég held að það sé hverri manneskju nauðsynlegt að yrkja og virkja sköpunarkraftinn sem í henni býr. Vegna þess að við losum um svo miklar stíflur á öðrum sviðum með því að virkja þennan kraft. Það kemur svo mikil vellíðan og áframhald. Allt önnur sýn á umhverfið og lífið því að þú finnur að þú hefur eitthvert afl til að hreyfa við öðru en bara þessu daglega striti. Það býr svo miklu meira í okkur öllum en okkur grunar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×