Innlent

Blaðamaður mátti taka myndband af reiðum stuðningsmanni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Stuðningsmaðurinn gagnrýndi dómgæsluna í leiknum harðlega. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Stuðningsmaðurinn gagnrýndi dómgæsluna í leiknum harðlega. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/valli
Persónuvernd hefur vísað frá máli áhorfanda á knattspyrnuleik sem kvartaði undan því að hafa verið tekinn upp á myndband í leik Aftureldingar og Selfoss í Pepsi-deild kvenna árið 2014.

Gagnrýndi dómgæsluna

Áhorfandinn hafði nokkuð ákveðnar skoðanir á dómgæslunni og lét vel í sér heyra. Myndband af honum rataði á veraldarvefinn, meðal annars á Youtube og Fótbolti.net en maðurinn taldi upptökuna ekki samrýmast lögum, ásamt því að koma henni til fjölmiðla hefði verið lögbrot.

Fréttamaður á leiknum birti umrætt myndskeið á netinu. Lögmaður hans sagði í svari sínu til Persónuverndar að umbjóðandi sinn hefði talið hegðun áhorfandans fréttnæma, og að með henni hefði hann vakið athygli viðstaddra. Fótboltaleikir séu nær allir teknir upp á myndband og ætti það að vera þeim sem heimsækja völlinn að vera það ljóst, enda séu myndbandsupptökuvélar staðsettar efst í áhorfendastúku. Þá sé það óhjákvæmilegt að áhorfendur séu að einhverju leyti í mynd.

Aldrei í sjónlínu upptökuvélar

Þá sagði hann jafnframt að myndbandið hafi vakið mikla athygli og því ákveðið að skrifa frétt um hegðun þessa stuðningsmanns. Í frétt Fótbolta.net kom fram að svo virtist sem auglýsingaherferð KSÍ, Ekki tapa þér, hafi ekki náð til allra. Lögmaðurinn sagði vinnslu fréttarinnar sanngjarna og málefnalega gagnvart stuðningsmanninum að því leyti að birt myndskeið sýni ekki grófustu ummæli hans eða verstu hegðun á leiknum.

Áhorfandinn sagði að engin skilti eða merkingar hafi verið á því svæði þar sem leikurinn fór fram, og þrátt fyrir að slíkir leikir séu teknir upp eigi áhorfendur ekki að þurfa að gera ráð fyrir að upptökuvélum sé beint sérstaklega að þeim. Hann hafi sjálfur aldrei verið í sjónlínu upptökuvélar. Þá hefði verið hægt að styðjast við myndefni af leiknum án hljóðs og hefði rödd hans þá ekki fylgt myndefninu.

Í úrskurði Persónuverndar segir að af gögnum málsins megi ráða að maðurinn hafi vakið athygli blaðamanns og annarra áhorfenda með hegðun sinni á opinberum vettvangi. Þá hafi honum mátt vera ljóst að fjölmiðlar og fréttamenn væru viðstaddir fótboltaleikinn sem myndu flytja fréttir af viðburðinum. Sá sem tekið hafi myndskeiðið hafi verið á leiknum sem fréttamaður og tekið upp hegðun mannsins þar sem hann hafi talið að um fréttnæmt efni af opinberum viðburði væri að ræða, sem ætti erindi við almenning.

Auglýsingaherferð KSÍ - Ekki tapa þér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×