Innlent

Framsóknarmenn brennimerktir meðal listamanna

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð stillir sér upp í myndatöku en hann mætti út á Leifsstöð fyrir nokkru til að taka á móti sýrlenskum flóttamönnum. Sigmundur kemur við sögu í heimildamyndaþáttum Árna Gunnarssonar.
Sigmundur Davíð stillir sér upp í myndatöku en hann mætti út á Leifsstöð fyrir nokkru til að taka á móti sýrlenskum flóttamönnum. Sigmundur kemur við sögu í heimildamyndaþáttum Árna Gunnarssonar. visir/anton brink
Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ómyrkur í máli á Facebooksíðu sinni, en hann tjáir sig um viðbrögð fulltrúa listmanna við fréttum þess efnis að forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafi styrkt Árna Gunnarsson, fyrrum varaþingmann flokksins, til að gera heimildaþáttaröð um flóttafólk.

„Ríkisstjórnin hefur aukið stuðning við menningarmál að og sérstaklega við kvikmyndagerð. En miðað við viðhorfin sem formaður BÍL og formaður kvikmyndagerðarmanna hafa lýst til málsins hefði umsókn inn í það kerfi frá hinum brennimerkta kvikmyndargerðarmanni líklega ekki verið pappírsins virði,“ skrifar Haraldur ómyrkur í máli á Facebooksíðu sína. Hann telur sig greina óvild og þá óvild vill hann rekja til þess að téður kvikmyndagerðarmaður er Framsóknarmaður.

Furðuleg viðhorf til styrksins

Fram hefur komið að Árni hafi fengið þrjár milljónir í styrk frá þróunarsamvinnustofu utanríkisráðuneytisins og 3 milljónir frá ríkisstjórninni. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 11 milljónir en Árni ætlar að fjalla um þróunaraðstoð Íslands við flóttafólk úti og aðlögun þeirra flóttamanna sem hingað eru komnir frá Sýrlandi.

Haraldur Einarsson telur Framsóknarmenn ekki njóta sannmælis meðal listamanna.
Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildur Gunnarsdóttir formaður Félags íslenskra kvikmyndagerðarmanna hafa báðar sett spurningarmerki við það hvernig þessi styrkur er til kominn, að Árni hafi ekki farið hefðbundnar leiðir við að fá fé til kvikmyndagerðarinnar og því hafi opinbert fé farið til hans án faglegrar umfjöllunar. Árni sótti ekki um styrk úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar, en hann segir í samtali við RÚV einfaldlega ekki hafa verið tími til þess.

Haraldur segir furðulegt að fylgjast með fréttum af styrkveitingunni, ríkisstjórnin styrki stöku sinnum verkefni sem eiga það yfirleitt sammerkt að vera samfélagslega mikilvæg og málefni flóttamanna sé stærsta mál samtímans. Hann segir listamenn yfirleitt fagna opinberum framlögum en ekki að þessu sinni.

Telja vinstri menn sig eiga styrkjakerfið?

„Jú, þeim sem að öllu jöfnu hefði þótt þetta hið besta mál finnst það ómögulegt af því að í ljós kom að kvikmyndagerðarmaðurinn hafði fyrir mörgum árum verið varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn. Það skipti engu máli að hann hefði verið formaður flóttamannaráðs, væri reyndur kvikmyndagerðarmaður, hefði tekið frumkvæði í að gera mynd um þetta stóra mál og samið um sýningarrétt,“ segir Haraldur og heldur áfram: „Man einhver eftir því að styrkir vegna menningar- og samfélagsmála hafi verið gerðir tortryggilegir vegna þess að viðtakandinn hafði tengst Samfylkingu eða Vg. Auðvitað ekki!“

Haraldur telur alveg ljóst að vilji menn spá í pólitísk viðhorf þeirra sem oftast fá styrki sé óhætt að gera ráð fyrir því a „slagsíðan væri einhvers staðar annars staðar en hjá Framsókn (og ég er ekki að tala um Sjálfstæðisflokkinn). Munið þið eftir fréttaröð um hversu stór hluti af milljarða menningarstyrkjum skattgreiðenda hefur runnið frá vinstrimönnum til annarra vinstrimanna? Nei, ekki ég heldur, ekki beint. Formaður Bandalags íslenskra listamanna (fyrrum þingmaður og ráðherra Vg) taldi betra að enginn ætti tækifæri á styrkjum til nokkurs sem talist gæti til lista eftir öðrum leiðum en eftir því „faglega fyrirkomulagi“ sem nokkuð hefur verið til umræðu að undanförnu.“

Furðulegt að fylgjast með fréttum af styrkveitingu til gerðar heimildamyndar um flóttamenn. Ríkisstjórnin styrkir stöku...

Posted by Haraldur Einarsson on 1. febrúar 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×