Innlent

Fimmtungur starfandi sérgreinalækna 67 ára eða eldri

Sveinn Arnarsson skrifar
Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir háan aldur sérgreinalækna umhugsunarverðan.
Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir háan aldur sérgreinalækna umhugsunarverðan.
Meðalaldur sérgreinalækna sem starfa samkvæmt rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands er 57,5 ár. Elsti sérgreinalæknirinn er 78 ára gamall en sá yngsti er 36 ára. Fimmtungur allra lækna með rammasamning við Sjúkratryggingar hefur náð 67 ára aldri.

Fram kemur hjá Sjúkratryggingum að 347 læknar séu með rammasamning við stofnunina um ýmsa heilbrigðistengda þjónustu. Af þeim eru 70 yfir 67 ára aldri. Dæmi eru um að læknar hefji störf í einkageiranum eftir að þeir hafa náð ellilífeyrisaldri hjá hinu opinbara. 38 barnalæknar eru með rammasamning við ríkið og eru þeir fjölmennasta stétt lækna með sérsamning.

Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir þennan háa aldur umhugsunarverðan. „Um áramótin var lokað fyrir nýliðun í stétt sérgreinalækna með rammasamning við Sjúkratryggingar. Þessar tölur staðfesta að sú ákvörðun er ekki til hagsbóta fyrir heilbrigðiskerfið,“ segir Arna. „Við þurfum að fá inn nýja þekkingu með yngri læknum sem koma til starfa eftir sérnám erlendis.“

Af 347 sérgreinalæknum sem eru með rammasamning við ríkið eru um 140 þeirra eingöngu starfandi sem sjálfstæðir sérgreinalæknar en um 200 þeirra eru einnig í vinnu annars staðar, langflestir þeirra við Landspítalann eða aðrar heilbrigðisstofnanir á vegum hins opinbera.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að útgjöld Sjúkratrygginga til sérgreinalækna í einkaþjónustu hefðu þrefaldast síðan 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×