Innlent

Þurftu að kaupa gögn um sjúkrahótel

Sveinn Arnarsson skrifar
Sjúkrahótelið í Ármúla á að hjálpa til við að útskrifa sjúklinga hraðar af Landspítalanum. Það hefur ekki gengið eftir að mati spítalans.
Sjúkrahótelið í Ármúla á að hjálpa til við að útskrifa sjúklinga hraðar af Landspítalanum. Það hefur ekki gengið eftir að mati spítalans. vísir/anton
Forsvarsmenn LSH segja alrangt að haft hafi verið samráð við spítalann í aðdraganda útboðs um sjúkrahótel í byrjun árs 2015 eins og framkvæmdastjóri sjúkrahótelsins við Ármúla hefur haldið fram. LSH hafi á endanum þurft að kaupa útboðsgögn eins og aðrir verktakar til að átta sig á útboðinu.

Kolbrún Víðisdóttir, framkvæmdastjóri sjúkrahótelsins, segir hótelið ekki geta lagað vanda Landspítalans. Sjúklingar sem komi á sjúkrahótelið séu í mörgum tilfellum veikari en þeir ættu að vera samkvæmt samningum Því sé erfitt að halda áfram samstarfi. Einnig segir hún gagnrýni í garð sjúkrahótelsins ómálefnalega og byggða á sandi.

„Samráð var haft við alla aðila við gerð síðasta útboðs,“ segir Kolbrún. „Fráflæðisvandamál LSH er vandi sem við tökum þátt í að leysa og hjá okkur eru um 20 til 30 gestir á hverjum sólarhring en 70 til 80 prósent þeirra koma frá Landspítalanum. Við getum hins vegar ekki tekið á móti mjög veiku fólki þar sem Landspítalinn er ekki með hjúkrun hér nema til 20.00 á kvöldin.

Kolbrún Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Heilsumiðstöðvarinnar.vísir/HAG
Þessari fullyrðingu eru forsvarsmenn spítalans ósammála. „Landspítali var þátttakandi í undirbúningsvinnu vegna útboðs framan af,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala.

„Hins vegar fengu fulltrúar Landspítala í undirbúningshópnum ekki fundarboð á síðustu fundi hópsins sem svo skilaði af sér fullkláruðum útboðsgögnum um sumarið. Landspítali sá því ekki lokaútboðsgögn og þegar útboðið var auglýst keypti Landspítali útboðsgögnin,“ segir Guðlaug Rakel. Atriði sem LSH lagði áherslu á hafi ekki verið inni í útboðinu.

„Landspítali fór raunar fram á að útboðið yrði stöðvað í ljósi þessa, en svo varð ekki. Það útboð sem svo fór fram var ekki í samræmi við væntingar og óskir Landspítala, enda fengu mikilvæg atriði sem Landspítali lagði áherslu á ekki hljómgrunn í hinu birta útboði . Þetta kom verulega á óvart.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×