Innlent

Prestar steinhissa á Bjarna Ben

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Prestar eru afar óánægðir með frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á kjararáði.

Formaður Prestafélags Íslands segir að lagafrumvarpið í óbreyttri mynd gangi í berhögg við samninga ríkisins og þjóðkirkjunnar frá árinu 1997.

Í drögum að frumvarpi til nýrra laga um kjararáð er lagt til að fækkað verði verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör fyrir enda hafi þróun síðustu ára verið í átt til óhóflegs fjölda þeirra sem falla undir ákvörðun ráðsins.

Lagt er til að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra taki mið af kjarasamningum, að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra og að kjör presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar. séra Kristján Björnsson formaður Prestafélags Íslands segir að félagið furði sig á frumvarpinu.

Í samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 1997 sé þess getið að hlutlaus aðili ákveði laun presta. Þetta verkefni hafi verið í höndum kjararáðs hingað til enda samningsstaða presta erfið.

„Við erum mjög hissa á því að Bjarni komi fram með þetta núna,“ segir séra Kristján Björnsson formaður Prestafélagsins. Hann segir að prestar hafi fengið kynningu á frumvarpinu í annarri mynd á síðasta ári. Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem Prestafélagið hafi fengið seint hafi beinlínis verið tekið fram það mat embættismanna að frumvarpið yrði lagt fram án þess að tilgreina presta. Það hafi verið skilningur prestafélagsins að prestar yrðu áfram undir ákvörðunum Kjararáðs. 

Bjarni Benediktssonvísir/vilhelm
séra Kristján segir að fyrirkomulag þar sem prestar sema sjálfir um laun sín gangi í berhögg við samninginn frá 1997.

„Til þess að það gæti orðið þá þyrfti að breyta kirkjujarðasamkomulaginu. Það eru samningar milli ríkis og kirkju og prestar hafa aldrei verið í samningum við kirkjuna sjálfa.“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í samtali við Stöð 2 síðdegis að það væri gert ráð fyrir því í frumvarpinu um kjararáð að breyting á umhverfi kjarasamninga presta yrði ekki gerð einhliða. Hann sagði að breyting sem lyti að prestum yrði ekki gerð án samkomulags við þá. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×