Innlent

Nýtt skráningarkerfi fyrir lækna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir og eigandi MS Investments, Gunnar Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, Ingi Steinn Ingason Landlæknisembættinu, Oddur Steinarsson framkvæmdastjóri lækninga, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.
Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir og eigandi MS Investments, Gunnar Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, Ingi Steinn Ingason Landlæknisembættinu, Oddur Steinarsson framkvæmdastjóri lækninga, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Vísir/STefán
Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins, Læknavaktin og Landlæknisembættið undirrituðu í gær samning um kaup á íslenska hugbúnaðinum MedSys. Samningurinn tryggir öllum læknum við störf á opinberum heilbrigðisstofnunum afnot af hugbúnaðinum sem sagður er byltingarkennd hugbúnaðarlausn á heilbrigðissviði.

„Sjúkraskráning er fyrirferðarmikil í störfum lækna en með MedSys mun skráning verða mun hraðvirkari og samræmd, auk þess sem kerfið getur leiðbeint læknum við störf sín, aðstoðað við úrvinnslu mála og jafnvel þýtt sjúkraskrár frá einu tungumáli til annars.“

Við sjúkraskráningu í MedSys fylgja kóðaðar upplýsingar sem að sögn Inga Steinars Ingasonar verkefnastjóra rafrænnar skráningar hjá Landlæknisembættinu, er hægt að nýta til hagsbóta fyrir sjúklinga og aukinna rannsókna úr rafrænum sjúkraskrám.

MedSys er hannað af Sveini Rúnar Sigurðssyni lækni, en hann hefur áratuga reynslu af hugbúnaðarþróun. Hjá félagi hans MS Investments starfa forritarar sem hafa síðastliðið ár unnið að smíði hugbúnaðarins og áformað er að hugbúnaðurinn verði kynntur læknum um allt land í upphafi árs 2017. Læknavaktin mun taka hugbúnaðinn í sína þjónustu þegar á haustmánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×