Innlent

Íslendingar bóki utanlandsferðir með styttri fyrirvara

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Það eru meira að segja dæmi um að fólk hafi pantað ferð allt að þremur tímum fyrir brottför en þá nær það nú bara rétt að henda sundbuxunum í bakpoka og bruna út á völl."
„Það eru meira að segja dæmi um að fólk hafi pantað ferð allt að þremur tímum fyrir brottför en þá nær það nú bara rétt að henda sundbuxunum í bakpoka og bruna út á völl." vísir/getty
Íslendingar eru í sérstöðu þegar kemur að því að bóka utanlandsferðir með skömmum fyrirvara. Fjölmörg dæmi eru um að Íslendingar panti sér ferð til sólarlanda með einungis nokkurra klukkustunda fyrirvara og er það vel þekkt að ferðaskrifstofur stóli á að síðustu sætin falli í skaut Íslendinga.

Þetta kemur fram á vef Túrista en þar er rætt við Kristínu Lind Andrésdóttur, framkvæmdastjóra Nazar, sem býður upp á ferðir til Tyrklands frá Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi.

„Það hefur komið skandinavísku samstarfsfólki mínu á óvart hversu seint sumir Íslendingar bóka ferðirnar. Þegar við eigum nokkur sæti laus, einum eða tveimur dögum fyrir brottför, reiknum við ekki endilega með því að þau seljist. Nema kannski á Íslandi því það kemur fyrir að síðustu sætin þaðan bókist daginn fyrir brottför eða jafnvel samdægurs," segir Kristín Lind.

„Það eru meira að segja dæmi um að fólk hafi pantað ferð allt að þremur tímum fyrir brottför en þá nær það nú bara rétt að henda sundbuxunum í bakpoka og bruna út á völl," bætir hún við.

Sumarið hefur verið heldur vætusamt og kalt var í júní en þegar þannig viðrar eykst eftirspurn eftir sólarlandaferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×