Innlent

„Þetta verður mjög fallegur fermingardagur fyrir drenginn“

Bjarki Ármannsson skrifar
Búið er að bjóða fram nær allt sem þarf til að halda fermingarveislu fyrir son dauðvona manns.
Búið er að bjóða fram nær allt sem þarf til að halda fermingarveislu fyrir son dauðvona manns. Vísir/Stefán/GVA
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segist vart hafa haft undan að svara símanum frá því í gærkvöldi vegna fólks sem vill bjóða fram hjálp við að halda veislu fyrir fermingardreng nokkurn. Greint var frá því í gær að Fjölskylduhjálp óskaði eftir aðstoð fyrir hönd fimm barna föður með banvænan sjúkdóm, sem sá ekki fram á að geta haldið veislu fyrir son sinn sem fermist um páskana.

„Þetta er búið að ganga alveg yndislega vel og þetta sýnir bara hvað þjóðin sýnir mikla samstöðu,“ segir Ásgerður. Hún segir að yfir fimmtíu þúsund manns hafi séð færslu samtakanna sem birt var í gærkvöldi og að margir hafi lagt inn pening á bankareikning fjölskyldunnar í kjölfarið.

Þá er fólk búið að bjóða fram hér um bil alla þá þjónustu sem þarf til þess að halda veisluna sjálfa. Ásgerður bendir þó á að ekki er hægt að fullyrða að staðið verði við öll boðin.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.Vísir/GVA
„Við munum nýta það sem er búið að bjóða,“ segir hún. „Við munum vinna úr þessu næstu daga og sjá hverju þau landa. Þetta lítur mjög vel út og þetta verður mjög fallegur fermingardagur fyrir drenginn.“

Faðir drengsins er sagður hafa veikst fyrir mánuði síðan og liggi nú fyrir dauðanum á spítala. Hann eigi sér þá ósk að halda veislu fyrir soninn en engir peningar séu til á heimilinu.

„Ég talaði við föðurinn í dag,“ segir Ásgerður. „Hann er náttúrulega á spítalanum en hann ætlar að reyna að mæta í veisluna. Hann er náttúrulega afskaplega þakklátur.“

Hægt er að styrkja fjölskylduna með því að leggja inn á reikninginn 0328-26-5619, kt. 091174-5619.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×