Innlent

Hjálpa dauðvona föður að halda fermingarveislu

Bjarki Ármannsson skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar. Vísir/GVA
Fjölskylduhjálp Íslands hefur óskað eftir hjálp fyrir hönd dauðvona fimm barna föður sem vill veita barni sínu fermingarveislu. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, segir fjölmarga hafa boðið fram aðstoð eftir að greint var frá tilfellinu á Facebook-síðu samtakanna.

„Þetta barst til mín á föstudaginn var og ég bað konuna að hafa samband við mig á sunnudag, sem hún gerði,“ segir Ásgerður. „Í þessu tilviki er um að ræða ungan mann sem á fimm börn. Hann veiktist fyrir mánuði síðan og liggur núna mjög veikur á spítala.“

Ásgerður segir að sonur mannsins sé að fermast um páskana og að engir peningar séu til á heimilinu til að halda veislu. Maðurinn eigi sér þó þá ósk að geta haldið veislu fyrir strákinn. Greint var frá þessu tilfelli á Facebook-síðunni fyrr í kvöld og Ásgerður segir viðbrögðin ekki hafa látið á sér standa.

„Ég er komin með ljósmyndara til að taka fermingarmyndina,“ segir hún. „Síðan hafa aðrir boðið fram fimmtíu þúsund krónur til að fara með móðurinni og kaupa inn í baksturinn, ein búin að bjóðast til að baka. Þannig að vonandi endar þetta bara vel.“

Blaðamaður Vísis náði tali af Ásgerði aðeins um klukkustund eftir að færsla samtakanna birtist á Facebook. Hún segist mjög glöð yfir þessum viðbrögðum fólks.

„Ég set aldrei neitt svona á Facebook nema manni sé alveg orðvant,“ segir hún. „Við fáum mjög margar sorgarsögur, mjög oft í viku. En það snýst ekki allt um fermingartímann.“

Áfram verður unnið að því að aðstoða fólkið á morgun en Ásgerður segir að Fjölskylduhjálp muni ekki koma að því að aðstoða fjölskylduna nema rétt við að kynna þau fyrir þeim sem vilja hjálpa. Facebook-færsluna, þar sem beðið er um hjálp, má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×