Innlent

Hafa gefið búnað fyrir um 70 milljónir

Sveinn Arnarsson skrifar
Forstjóri sjúkrahússins á Akureyri segir það skipta miklu máli að finna þann velvilja í samfélaginu til starfsfólks og stofnunarinnar.
Forstjóri sjúkrahússins á Akureyri segir það skipta miklu máli að finna þann velvilja í samfélaginu til starfsfólks og stofnunarinnar. Mynd/Auðunn Níelsson
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri gáfu í vikunni sjúkrahúsinu 10 ný sjúkrarúm á geðdeild spítalans auk hægindastóla sem verður komið fyrir á hinum ýmsu deildum spítalans.

Samanlagt hafa samtökin gefið tæki og búnað upp á um 70 milljónir króna til spítalans síðustu misseri.

Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, var að vonum ánægður með gjöfina. „Þetta er höfðinglegt og myndarlegt framtak af hálfu hollvinasamtakanna. Þau hafa staðið þétt við bakið á okkur allt frá stofnun félagsins og dregið til liðs við sig ríflega 1.700 félagsmenn af svæðinu. Það er ómetanlegt að finna þennan stuðning og jákvæðni til okkar úti í samfélaginu til okkar sem störfum á sjúkrahúsinu,“ sagði Bjarni.

Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður hollvinasamtakanna, segir það skipta miklu máli að hafa öflugan spítala á Norðurlandi. Hann segir hins vegar óskastöðu að samtökin yrðu óþörf með öllu og að tæki á spítalann þyrftu ekki að koma þessa leið inn á stofnunina. 

„Nei, í hinum fullkomna heimi ætti sjúkrahúsið að fá það sem óskað er eftir og fagmenn benda á að þurfi, svo er bara alls ekki í dag og það fer ansi langt frá því að vera sú draumaveröld og við erum með langan lista af tækjum sem eru á óskalista sjúkrahússins,“ segir Jóhannes. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×