Innlent

Hormónalyfin hafa verið misnotuð í mörg ár

Linda Blöndal skrifar
Tilvik þar sem fólk hefur misnotað skjaldkirtlahormónalyf koma regluleg upp hjá átröskunarteymi Landspítalans. Vitað er að lyfin ganga kaupum og sölum en  meðferðaraðilar hafa í þeim efnum sérstaklega áhyggjur af líkamsræktarstöðum og vinsældum Fitness íþróttarinnar. Pillurnar eru til dæmis keyptar í gegnum vefverslun frá Kína en þeir sem fá því ávísað hér á landi þurfa undanþágulyfseðla frá Lyfjastofnun. Lyfið getur verið lífshættulegt sé inntakan ekki rétt eins og Fréttablaðið og Stöð tvö hafa fjallað um en komið hefur fram að sóst er eftir því að fá að kaupa hormónapillurnar af þeim sem fá þeim ávísað með réttu vegna vanvirks skjaldkirtils. 



Vita um misnotkun í mörg ár 

Sigurlaug María Jónsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri átröskunarteymis Landspítalans segir fréttir af misnotkuninni ekki koma sér á óvart en á milli fimmtíu til sextíu einstaklingar, mest konur eru þar í einhvers konar meðferð árlega. „Þetta er eitthvað sem við höfum alltaf skimað fyrir hjá okkur frá því að teymið var stofnað árið 2006", sagði Sigurlaug í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og hefur því lyfið verið misnotað í næstum áratug. 



Engin heildarsýn á vandann 

Önnur efni sem fólk notar í megrun og sem ógna heilsu manna hafa verið lengi í umferð en engin yfirsýn er yfir hve mikið það er eða um neysluna. Sigurlaug segir mjög margt vafasamt í boði og aðkallandi að gera átak í því á vissum stöðum og vinna úttekt á vandanum því misnotkun lyfja hjá átröskunarsjúklingum hafi aukist undanfarin ár miðað við reynsluna á Landspítalanum. 



Átak innan líkamsræktarstöðva 

„Það þarf kannski bara að skoða þetta innan líkamsræktarstöðvanna því ég veit að þar er aðgengið gríðarlega auðvelt. Það þyrfti kannski eitthvert sameiginlegt átak að fara af stað á líkamsræktarstöðvunum", segir Sigurlaug. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×