Innlent

Óháðir aðilar oft betri en ríki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
SÁÁ á aðild að Almannaheillum og er dæmi um samtök sem hafa skipt sköpum fyrir velferðar- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Stephen Bubb segir að frjáls félagasamtök styrki samfélagið og lýðræðið.
SÁÁ á aðild að Almannaheillum og er dæmi um samtök sem hafa skipt sköpum fyrir velferðar- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Stephen Bubb segir að frjáls félagasamtök styrki samfélagið og lýðræðið. fréttablaðið/heiða
Frjáls félagasamtök skipta miklu máli í starfi að velferðarmálum og heilbrigðismálum, segir Bretinn Sir Stephen Bubb.

Hann er framkvæmdastjóri ACEVO, samtaka stjórnenda sjálfboðasamtaka í Bretlandi, og verður aðalræðumaður á málþingi sem Almannaheill standa fyrir á Fundi fólksins á morgun.

Bubb segir að stjórnvöld gætu veitt almannaþjónustu mun betur með því að nýta frjáls félagasamtök og góðgerðarfélög á skilvirkari hátt. „Þegar þú horfir á heilbrigðisgeirann í Bretlandi þá hafa frjáls félagasamtök alltaf spilað stóra rullu. Og stundum eru frjáls félagasamtök betri í því að aðstoða fólk með geðheilbrigðisvanda, í fíkn, heldur en ríkið getur gert. Þau eru oft betur miðuð að skjólstæðingnum en ríkið,“ segir Bubb.

Þá bendir Bubb á að frjáls félagasamtök skipti verulegu máli fyrir efnahagslíf í hverju ríki. Hann bendir á að 1,5 milljónir manna séu á launum hjá frjálsum félagasamtökum í Bretlandi og um 6 milljónir manna starfa reglulega í sjálfboðaliðsvinnu fyrir frjáls félagasamtök.

Stephen Bubb


Bubb segir að munurinn á sterkum samfélögum og veikum samfélögum sé fjöldi frjálsra félagasamtaka í samfélaginu. Það sé grundvallaratriði að stjórnvöld hafi mótaða stefnu sem styður og verndar frjáls félagasamtök og skaðar þau ekki. „Að auki er mikilvægt að stjórnvöld virði sjálfstæði þessara samtaka. Að þau styðji en séu ekki að reyna að stýra eða segja fyrir um hvað á að gera og hvað ekki,“ segir Bubb.

Bubb segir að stjórnvöld verði að gefa þessum félagasamtökum svigrúm til þess að tala frjálslega. „Þannig að ef stjórnvöld eru að gera eitthvað sem skaðar samfélagið þá er það hlutverk þessara félagasamtaka að koma í veg fyrir það,“ segir Bubb. Það verði að hafa á hreinu að það sé hlutverk þessara frjálsu félagasamtaka að benda á það sem miður fer. „Við erum ekki hluti ríkisins og stundum þurfum við að segja ríkisvaldinu ef það er að gera eitthvað rangt,“ segir hann.

Bubb bendir á að í hluta Austur-Evrópu og í Rússlandi hafi frjáls félagasamtök og góðgerðarsamtök hreinlega verið barin niður. „Þannig að þú þarft að geta boðið stjórnvöldum birginn og góð stjórnvöld skilja það en styðja samt við bakið á þessum sömu félagasamtökum,“ segir Bubb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×