Innlent

Dæmdur nauðgari ákærður fyrir líkamsárás

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin varð á Frakkastíg á milli Grettisgötu og Laugavegar.
Árásin varð á Frakkastíg á milli Grettisgötu og Laugavegar. Vísir/Anton
Tæplega þrítugur karlmaður, Marcel Wojcik, hefur verið ákærður af ríkissaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir utan hús við Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur í júní í fyrra. Maðurinn afplánar nú tveggja ára dóm fyrir nauðgun í september síðastliðnum.

Líkamsárásin átti sér stað síðdegis þriðjudaginn 10. júní utan við hús á Frakkastíg á milli Laugarvegar og Grettisgötu. Er Marcel gefið að sök að hafa veist að tæplega sextugum karlmanni, slegið hann í andlitið og sparkað ítrekað í höfuð og búk hans þar sem hann lá á jörðinni.

Afleiðingar árásarinnar voru þær að maðurinn hlaut sár yfir nefrót og á enni, mar hægra megin á höfði og brjóstkassa, eymsli á kvið og tvö brotin rifbein. Maðurinn sem fyrir árásinni varð fer fram á rúmlega 700 þúsund krónur í skaðabætur og útlagðan kostnað auk 150 þúsund krónur vegna kostnaðar við lögmannsaðstoð.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×