Innlent

Lausagönguhæna olli umferðaröngþveiti í Garðabæ

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Oddný segist vera mikill dýravinur og hafi ekki getað horft upp á hænuna kremjast á götunni.
Oddný segist vera mikill dýravinur og hafi ekki getað horft upp á hænuna kremjast á götunni. mynd/Food Co/Einkasafn
Oddný Dögg Friðriksdóttir komst í hann krappann í dag þegar hún reyndi að koma lausagönguhænu í Garðabæ til síns heima. Oddný var að aka eftir Hafnafjarðarvegi um klukkan eitt í dag þegar hún ók fram á hænsn sem spígsporaði meðfram einni umferðarþyngstu götu landsins.

„Ég er nú ágætlega mikill dýravinur og ég gat hreinlega ekki haft það á samviskunni að skilja hænuna þarna eftir þannig að ég stöðvaði við Aktu taktu og hljóp út úr bílnum,“ segir Oddný í samtali við Vísi. Þaðan hafi hún hlaupið að nærliggjandi húsi til að grennslast fyrir um hvort einhver þar kannaðist við hænuna.

„Þar kom maður til dyra og ég spurði hann hvort að hann væri nokkuð búinn að týna hænunni sinni. Hann hélt nú ekki þannig að ég hljóp aftur að veginum til að athuga með hænuna með tveimur stelpum úr húsinu,“ segir Oddný.

Hænan út á Hafnafjarðarveg og Oddný á eftir

Viti menn, hænan var enn á sínum stað við veginn. Oddný segir að í ljósi þess að engin þeirra þriggja hafi haft neina reynslu af meðhöndlun fiðurfjár hafi þær stöllur ekki þorað að taka hænuna upp.

„Við ákváðum því að reyna að smala hænunni frá veginum og í átt að grasinu sem var þarna við hliðina á,“ segir Oddný. Allt kom fyrir ekki, hænan æddi út í umferðina. „Við hlupum á eftir henni þarna út á veginn og reyndum að stöðva bílana sem voru allir akandi á fullri ferð. Ég meina, við gátum ekki horft á hænuna kremjast þarna á götunni.“

Eftir að hafa bæði næstum orðið fyrir bíl segir Oddný að henni hafi þó loksins tekst að ná hænunni af götunni. Hún hafi hlaupið á nærliggjandi tún og þar hafi Oddný misst sjónar af henni.

Eftir að hafa keyrt um hverfið og bankað á dyr á tveimur húsum í grenndinni hafi Oddný gefið leitina upp á bátinn. „Fólk heldur örugglega að ég sé eitthvað biluð eftir þetta,“ segir hún en vonar að frásögn sín verði til þess að réttmætir eigendur hænunnar komist á snoðir um hana að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×