Innlent

Áfangaheimili lokað: Vonar að enginn lendi á götunni

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Áfangaheimili fyrir fólk með geðrofssjúkdóma verður lokað í næstu viku vegna fjárhagsörðugleika og ekki er búið að finna önnur búsetuúrræði fyrir alla íbúa hússins. Húsið, sem var byggt fyrir söfnunarfé frá Kiwanisfélaginu, verður annað hvort selt eða leigt út.

Undanfarin ár hefur verið rekið í húsinu, sem stendur við Álfaland 15 í Fossvoginum, heimili fyrir sjö einstaklinga og einn til viðbótar í séríbúð. Dvölin er hugsuð sem endurhæfing til að búa þá undir sjálfstæða búsetu.

Formaður Geðverndarfélags Íslands, Gunnlaug Thorlacius, ber við fjárskorti og segir styrk frá Velferðarráðuneytinu ekki hafa dugað til og viðræður um samstarf við Reykjavíkurborg ekki hafa borið árangur.

Mikill skortur er á búsetuúrræðum og húsnæði fyrir fólk með geðfötlun.  María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, greindi frá því í viðtali við Fréttablaðið nýverið að sá sem lengst hefur beðið á geðdeild eftir búsetuúrræði hafi beðið í tvö ár. Það er ekki búið að finna búsetu fyrir alla íbúa Álfalands og skammur tími til stefnu því skellt verður í lás 30.júní.

„Nei því miður, það er ekki búið að finna úrræði fyrir alla, en það er svona í pípunum og við erum bjartsýn á að það hafist,“ segir Gunnlaug og segist vona að enginn íbúa lendi á götunni.

Húsið keypt fyrir söfnunarfé

Húsið er eign Geðverndarfélags Íslands en það var gefið félaginu af Kiwanis-hreyfingunni sem byggði það fyrir söfnunarfé á 9. áratugnum svo þar mætti hafa heimili fyrir geðfatlaða. Spurt er, má selja eða leigja út húsið í öðrum tilgangi?

„Já, húsið er byggt fyrir gjafafé sem fékkst fyrir sölu K-lykilsins á sínum tíma, við létum athuga það í öllum pappírum hjá okkur og við fengum lögformlegt álit á því og það eru ekki kvaðir á gjöfinni sem slíkri.“

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort húsið verður leigt út eða selt. 

„Það er ekki búið að taka ákvörðun um það núna. Íbúum var öllum sagt upp með mjög góðum fyrirvara, mig minnir að það hafi verið sjö eða átta mánaða fyrirvari á uppsögnum. Svo munum við taka ákvörðun í framhaldinu. Það er ljóst að við þurfum að standa vörð um hagsmuni félagsins. Við höfum þurft að ganga svolítið á eignir til að reka þetta. Við þurfum að gæta líka hagsmuna greiðenda félaga Geðverndarfélags Íslands.“ 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×